Erlent

Verður fyrsta konan til að gegna em­bætti Grikk­lands­for­seta

Atli Ísleifsson skrifar
Ekaterini Sakellaropoulou hefur á síðustu árum gegnt embætti forseta stjórnlagadómstóls Grikklands.
Ekaterini Sakellaropoulou hefur á síðustu árum gegnt embætti forseta stjórnlagadómstóls Grikklands. AP

Ekaterini Sakellaropoulou verður fyrsta konan til að gegna embætti forseta Grikklands. Þetta verð ljóst eftir að mikill meirihluti gríska þingsins greiddi atkvæði með tillögu um að hún yrði næsti forseti landsins.

Hin 63 ára Sakellaropoulou, sem starfað hefur sem forseti stjórnlagadómstólsins, naut stuðnings þvert á flokka en alls greiddu 261 þingmaður af 294 atkvæði með tillögunni.

„Ekaterini Sakellaropoulou hefur verið tilnefnd sem forseti lýðveldsins,“ sagði þingforsetinn Costas Tassoulas eftir atkvæðagreiðsluna.

Hún tekur við embættinu af Prokopis Pavlopoulos hættir í mars eftir fimm ár í embætti forseta.

Íhaldsmaðurinn og forsætisráðherrann Kyriakos Mitsotakis lagði fram tillögu um Sakellaropoulou sem næsta forseta, en hún er sérfræðingur í málefnum stjórnarskrár landsins og umhverfislöggjöf.

Mitsotakis lagði ekki einungis áherslu á að Sakellaropoulou væri kona, heldur einnig óflokksbundin sem er nýlunda þegar kemur að forsetaembættinu. Mitsotakis hefur sætt mikillar gagnrýni í heimalandinu vegna lítils fjölda kvenna í ríkisstjórn.

Sakellaropoulou stundaði nám meðal annars í Sorbonne-háskólanum í París og var fyrsta konan til að gegna embætti forseta stjórnlagadómstólsins.

Forseti Grikklands er æðsti yfirmaður hersins og veitir mönnum umboð til myndunar ríkisstjórnar, en er að öðru leyti að stærstum hluta valdalítið embætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×