Innlent

Búið að opna fyrir umferð um Hellisheiði á ný

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Veður var mjög slæmt á vettvangi við afleggjarann að Hellisheiðarvirkjun.
Veður var mjög slæmt á vettvangi við afleggjarann að Hellisheiðarvirkjun. Vísir/baldur

Búið er að opna fyrir umferð um Hellisheiði á ný eftir að veginum var lokað þegar tvær rútur lentu út af á níunda tímanum í morgun. Veður var mjög slæmt á vettvangi, líkt og víðar á landinu í dag.

Í tilkynningu frá Vegagerðinni frá því um rétt fyrir klukkan eitt kemur fram að Hellisheiði hafi aftur verið opnuð. Vegfarendum hafði verið bent um að fara hjáleið um Þrengsli á meðan viðbragðsaðilar athöfnuðu sig á vettvangi.

Alls voru 38 ferðamenn í rútunum tveimur. Engan sakaði í óhappinu, hvers tildrög hafa enn ekki verið staðfest. Oddur Árnason yfirlögregluþjónn á Selfossi sagði þó í samtali við fréttastofu í morgun að veðurfar hafi „örugglega spilað þarna inn í“. Hvasst var á vettvangi og mikið kóf, að sögn Odds. 

Færð er víða slæm annars staðar á landinu. Á Vesturlandi er vetrarfærð en víðast hvasst og búist við að skyggni versni töluvert á Holtavörðuheiði þegar líða tekur á daginn. Á Vestfjörðum hefur veginum um Þröskulda verið lokað vegna veðurs og verður það líklega til morguns. Bent er á hjáleið um Innstrandaveg. Vegurinn um Steingrímsfjarðarheiði er einnig lokaður. Þá er vegurinn um Klettsháls ófær.

Á Norðurlandi hefur Siglufjarðarvegi um Almenninga verið lokað og stórhríð er á Mývatns- og Möðrudalsöræfum. Fyrir austan er ófært um Vatnsskarð. Þá er þæfingsfærð á Sólheimavegi og Þingvallavegi austan Þingvallavatns, auk þess sem töluvert hvasst er austan Hafnar.

Veðurfræðingur Vegagerðarinnar bendir á að kuldaskil gangi yfir landið í dag frá suðri til norðurs, með snjókomu, skafrenningi og lélegu skyggni á fjallvegum. Þá verður einnig mjög hvasst, 19-23 m/s, á heiðum á norðvestanverðu landinu. Lægir og styttir upp í kvöld og nótt, fyrst syðst.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.