Erlent

Staðfesta að herflugvél fórst í Afganistan

Samúel Karl Ólason skrifar
Talsmaður flughersins segir ekkert útlit fyrir að flugvélin hafi verið skotin niður en rannsókn standi yfir.
Talsmaður flughersins segir ekkert útlit fyrir að flugvélin hafi verið skotin niður en rannsókn standi yfir. AP/Tariq Ghazniwal

Flugher Bandaríkjanna hefur staðfest að það var herflugvél á þeirra vegum sem brotlenti í Ghaznihéraði í Afganistan. Talsmaður flughersins segir ekkert útlit fyrir að flugvélin hafi verið skotin niður en rannsókn standi yfir. Ekkert liggur fyrir varðandi dauðsföll en blaðamaður á svæðinu segist hafa séð tvö lík og að talið sé að tveir hafi lifað slysið af.

Um er að ræða Bombardier E-11A. Ghazni-hérað er við rætur Hindu Kush-fjallgarðsins, þar sem veðuraðstæður geta oft verið óblíðar á þessum tíma árs. Brak vélarinnar hafnaði á yfirráðasvæði Talibana en samt þó eingöngu tíu kílómetra frá herstöð Bandaríkjanna.

Í fyrstu var talið að farþegaflugvél frá flugfélaginu Ariana hefði brotlent.

Sjá einnig: Enn margt á reiki varðandi meint flugslys

AP fréttaveitan ræddi við Tariq Ghazniwal, afganskan blaðamann, sem sagðist hafa séð brennandi flugvélarbrak og tvö lík fremst í flugvélinni. Hann sagði fremsta hluta flugvélarinnar mjög brunninn og hún væri mjög illa farin.

Blaðamaðurinn sagði sömuleiðis að Talibanar hefðu fjölmennt á svæðinu þar sem flugvélin brotlenti og að vígamenn hafi verið sendir til að leita að tveimur áhafnarmeðlimum flugvélarinnar sem talið er að hafi lifað af.

Frásögn hans hefur þó ekki verið staðfest enn.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.