Erlent

Enn margt á reiki varðandi meint flugslys

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Þessi mynd er sögð sýna brak vélarinnar sem sögð er hafa hrapað í Afganistan í dag.
Þessi mynd er sögð sýna brak vélarinnar sem sögð er hafa hrapað í Afganistan í dag. Vísir/AP

Bandaríski herinn hefur blandað sér í rannsókn á flugslysi sem sagt er hafa átt sér stað í Afganistan í dag. Lítið sem ekkert liggur fyrir um afdrif flugvélarinnar.

Málið þykir hið undarlegasta en farþegaþota á vegum Ariana, ríkisflugfélags Afganistans, er sögð hafa hrapað til jarðar skömmu eftir hádegi að staðartíma í morgun í Ghazni-héraði.

Fréttir af málinu byggðu á staðfestinguþarlendra embættismanna en ríkisflugfélagið sjálft kannast ekki við að flugslys hafi orðið, allar þotur félagsins séu nothæfar og öruggar.

Til þess að flækja málið hefur íranskur fjölmiðill birt myndband af flugvél sem haldið er fram að sé sú hin sama og hrapaði í Afganistan. Á myndbandinu má sjá að vélin er merkt bandaríska flughernum. Um er að ræða Bombardier E-11A þotu sem notuð er til að vakta rafræn samskipti.

Ghazni-hérað er við rætur Hindu Kush-fjallgarðsins, þar sem veðuraðstæður geta oft verið óblíðar á þessum tíma árs. Brak vélarinnar hafnaði í hverfi sem AP og Reuters segja lúta stjórn Talíbana.

Talsmaður bandaríska hersins segir að enn sé óvíst hvaða flugvél hafi hrapað auk þess sem að annar talsmaður hresins sagði að málið væri til rannsóknar, ekki væri hægt að staðfesta að um herflugvél bandaríska hersins væri að ræða.

Þá segja flugmálayfirvöld í Afganistan að ekki sé vitað til þess að farþegaþota hafi hrapað.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×