Innlent

Grunur leikur á íkveikju í Vesturbergi 4

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar

Íbúar í Vesturbergi 4 voru á hrakhólum yfir jólahátíðina og eru enn, eftir að kviknaði í stigagangi hússins. Sterkur grunur leikur á að um íkveikju hafi verið að ræða en enginn hefur verið handtekinn.

Þann 20. desember kviknaði í stigagangi í Vesturbergi 4. Í dag hófust þrif á íbúðum en út frá lykt og sóðaskapnum í húsinu er ljóst að það eru mánuðir en ekki vikur þar til fólk getur flutt inn aftur.

Eldurinn átti upptök sín á jarðhæð í stigaganginum. Gangurinn er illa farinn og mikil vinna framundan. Það er þó komið rafmagn aftur á og gert ráð fyrir að klára að þrífa íbúð Önnu Kristbjargar á annarri hæð í dag.

„Það er verið að þrífa en ég get ekki séð að við séum að fara hér, allavega ekki í bráð,“ segir Anna í samtali við kvöldfréttir Stöðvar 2.

Anna og fjölskylda eru afar þakklát fyrir lánsíbúð sem þau fengu yfir jólin en missa um mánaðamótin.

„Við erum bara búin að gera gott úr þessu og eiga ágætis jól þótt ég hefði viljað eiga þau hér heima,“ segir Anna.

„Ég veit náttúrulega ekki um alla íbúa en þeir sem ég hef hitt eru á hrakhólum.“

Fréttir hafa verið sagðar af því að maður hafi játað á sig íkveikju. Heimildir fréttastofu herma að maðurinn hafi leigt herbergi í stigaganginum. Lögregla getur ekki veitt frekari upplýsingar en þær að rannsókn sé í fullum gangi og miði ágætlega.

„Það gengur skjáskot milli manna og það er maður sem hefur játað að hafa kveikt í,“ segir Anna en bætir við að ekki sé búið að handtaka hann.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×