Erlent

Minnst ellefu látist í Banda­ríkjunum í miklum veðurofsa

Eiður Þór Árnason skrifar
Stormur olli miklu tjóni á fyrirtæki í Mississippiríki.
Stormur olli miklu tjóni á fyrirtæki í Mississippiríki. Vísir/AP

Minnst ellefu hafa látið lífið í miklu óveðri sem gengið hefur yfir suður- og miðvesturhluta Bandaríkjanna síðustu daga. Stór hluti landsins hefur ýmist þurft að glíma við mikla storma, hvirfilbylji eða ofsafengna rigningu.

Af þeim ellefu létust tveir viðbragðsaðilar í gær og særðist annar illa í Texas þegar keyrt var á þá meðan þeir voru á vettvangi umferðarslyss sem átti sér stað í hálku.

Tilkynnt hefur verið um veðurtengd andlát í Texas, Alabama, Louisiana og Oklahoma. AP fréttastofan greinir meðal annars frá því að vindur hafi náð að lyfta upp hjólhýsi í Louisiana með þeim afleiðingum að það færðist tugi metra.

Hundruð þúsunda íbúa hafa verið án rafmagns allt frá Texas að Ohio, vegasamgöngur hafa farið úr skorðum vegna flóða og hundruð flugferða felldar niður til og frá Chicago vegna veðurs.

Asa Hutchinson, ríkisstjóri Arkansas, hefur lýst yfir neyðarástandi á svæðinu í ljósi aðstæðna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×