Erlent

Mótmæli í Suður-Evrópu vegna stækrar loftmengunar

Kjartan Kjartansson skrifar
Sumir íbúar Sarajevó hafa gripið til þess ráðs að ganga með andlitsmaska til að verja sig fyrir svifryksmengun.
Sumir íbúar Sarajevó hafa gripið til þess ráðs að ganga með andlitsmaska til að verja sig fyrir svifryksmengun. Vísir/EPA

Loftmengun í borgum í löndum Suður-Evrópu hefur náð hættumörkum undanfarna daga. Umferð dísilknúinna bifreiða hefur verið bönnuð tímabundið í ítölskum stórborgum og í Bosníu og Hersegóvínu hafa gasgrímuklæddir mótmælendur krafið stjórnvöld aðgerða.

Viðvarandi heiðríkja og stilla hefur leitt til þess að mengunarþoka hefur lagst yfir margar borgir í sunnanverðri álfunni. Í Róm, þar sem mælingar á svifryki á níu mælistöðvum af þrettán hafa verið yfir heilsuverndarmörkum í vikunni, hafa borgaryfirvöld reynt að draga úr menguninni með því að banna umferð dísilbíla, sendiferðabíla og bifhjóla á háannatíma.

Umferð annarra mengandi bifreiða hefur verið bönnuð alfarið, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.  Í Mílanó og Tórínó hefur verið gripið til sambærilegra aðgerða til að hreinsa loftið.

Hundruð manna kröfðust skjótra aðgerða til að draga úr mengun í borgum og bæjum í Bosníu og Hersegóvínu í gær. Margir þeirra voru með gasgrímur eða andslitsmaska. Í höfuðborginni Sarajevó hefur ríkisstjórnin haldið neyðarfundi til að ræða stöðuna. Viðvörunarástandi var lýst yfir um helgina og bílaumferð takmörkuð.

Mengunin í Sarajevó er ein sú versta á álfunni um þessar mundir ásamt höfuðborgum nágrannaríkjanna Serbíu, Kósovó og Makedóníu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.