Innlent

Reykjavíkurborg áfrýjar dómi í Shaken Baby-máli

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Reikna má með að málið verði tekið fyrir á Landsrétti síðar á árinu.
Reikna má með að málið verði tekið fyrir á Landsrétti síðar á árinu. Vísir/Egill

Reykjavíkurborg hefur ákveðið að áfrýja dómi í Shaken Baby-máli sem féll í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 19. desember. Dómurinn sagði Barnavernd Reykjavíkur hafa brugðist skyldum sínum gagnvart fjölskyldunni. Var fjögurra manna fjölskyldunni dæmdar samtals átta milljónir króna í bætur.

Frestur til að áfrýja dómum úr héraði til Landsréttar er fjórar vikur.

Foreldrarnir voru sakaðir um að hafa hrist níu mánaða gamlan son þeirra í júní árið 2013. Lögreglan hætti rannsókn málsins tæpu ári síðar vegna þess að sönnunargögn þóttu ekki líkleg til sakfellingar. Svo fór að íslenska ríkið greiddi foreldrunum skaðabætur vegna ólögmætra aðgerða lögreglu og Barnaverndarstofu.

Reykjavíkurborg hafnaði hins vegar bótakröfu foreldranna og barna þeirra vegna framferði Barnaverndar Reykjavíkur sem heyrir undir Barnaverndarstofu. Höfðaði fjögurra manna fjölskyldan mál á hendur Reykjavíkurborg sem lauk með sigri fjölskyldunnar. Foreldrarnir grétu í faðmlögum við dómsuppkvaðninguna.

„Ég veit ekki hvort það voru gleðitár, spennufall, blanda af hvoru tveggja. En auðvitað ofboðslega mikil sorg að það hafi þurft þetta til. Það á ekki að vera þannig að almennir borgarar þurfi að ganga svona stíft á eftir rétti sínum gagnvart stjórnvaldi,“ segir móðir barnsins við fréttastofu.

Fjölskyldan er nú á leið í næstu umferð fyrir Landsrétti.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×