Sjóðheitur Ronaldo sá um Parma

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ronaldo fagnar síðara marki sínu í kvöld sem Dybala lagði upp.
Ronaldo fagnar síðara marki sínu í kvöld sem Dybala lagði upp. vísir/getty

Cristiano Ronaldo kom sá og sigraði er Juventus landaði öllum þremur stigunum í leik kvöldsins gegn Parma. Lokatölur 2-1 þar sem Ronaldo skoraði tvívegis.

Parma tókst að halda Ronaldo og samherjum hans í skefjum allt fram að markamínútunni sjálfri. Þá fékk Ronaldo knöttinn vinstra megin við vítateig Parma. Hann lék inn að marki og lét vaða, knötturinn hafði viðkomu í varnarmanni áður en hann endaði í netinu. Staðan orðin 1-0 og markið skráð á Ronaldo þar sem skotið var á leið á rammann. 

Eftir tíu mínútna leik í síðari hálfleik þá jafnaði Parma metin þökk sé marki frá hinum danska Andreas Cornelius. Gestirnir voru eflaust enn að fagna þegar Ronaldo kom Juventus aftur yfir þremur mínútum síðar eftir sendingu frá Paulo Dybala. 

Var það 11. mark Ronaldo í síðustu sjö leikjum og 432. deildarmark hans á ferlinum. Tókst honum, í skamma stund, að jafna Lionel Messi í mörkum skoruðum í stærstu fimm deildum Evrópu. Svo virðist sem fréttir af marki Ronaldo hafi ratað til Spánar en Messi skoraði skömmu síðar og er því kominn með 433 deildarmörk.

Lokatölur á Allianz vellinum í Tórínó eins og áður sagði 2-1 þökk sé tvennu frá Ronaldo. Juventus er því komið með fjögurra stiga forystu á toppi deildarinnar þar sem Inter Milan mistókst að sigra Lecce á útivelli fyrr í dag. Parma er með 28 stig í 8. sæti.

Fyrr í dag vann Roma 3-1 sigur á Genoa á útivelli þökk sé mörkum Cengiz Under, Davide Biraschi og Edin Dzeko. Roma er í 4. sæti með 38 stig, 13 stigum á eftir Juventus.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira