Innlent

Appel­sínu­gular við­varanir, „var­huga­verðar vind­hviður“ og snjó­flóða­hætta

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Viðvaranir eru í gildi í öllum landshlutum á einhverjum tímapunkti um helgina. Gular viðvaranir taka gildi austanlands síðdegis á morgun en aðrar viðvaranir aðfaranótt sunnudags.
Viðvaranir eru í gildi í öllum landshlutum á einhverjum tímapunkti um helgina. Gular viðvaranir taka gildi austanlands síðdegis á morgun en aðrar viðvaranir aðfaranótt sunnudags. Skjáskot/veðurstofa íslands

Veðurstofan vekur athygli á gulum og appelsínugulum viðvörunum sem taka gildi í nokkrum landshlutum seint á laugardagskvöld. Appelsínugular viðvaranir eru í gildi fyrir Breiðafjörð, Vestfirði, Norðurland eystra, Strandir og Norðurland vestra og Miðhálendið. Gular viðvaranir eru í gildi fyrir höfuðborgarsvæðið, Suðurland og Faxaflóa.

Spáð er suðaustan stormi með mikilli rigningu eða slyddu og hlýnandi veðri, en heldur hvassara og snjókoma til fjalla í fyrstu. Á Norðurlandi má jafnframt búast við „mjög hvössum og varhugaverðum“ vindhviðum við fjöll, 35-45 m/s, að því er fram kemur á vef Veðurstofunnar.

Þá má búast má við auknum leysingum og afrennsli, einnig vatnavöxtum í ám og lækjum. Mikil hálka getur jafnframt myndast þar sem rignir á klakabunka eða þjappaðan snjó. Þá er mikilvægt að hreinsa frá niðurföllum til að forðast vatnstjón vegna rigningar og leysingavatns.

Í nokkrum landshlutum eru víðtækar samgöngutruflanir líklegar og ekkert ferðaveður er á meðan viðvaranir eru í gildi.

„Svo viljum við benda á að aðfaranótt sunnudags hlánar og verður frostlaust til fjalla. Snjórinn getur orðið óstöðugari og reiknað er með að snjóflóð geti fallið. Snjórinn ætti svo að styrkjast þegar kólnar aftur,“ segir í færslu á Facebook-síðu Veðurstofunnar.

Þá eru gular viðvaranir í gildi á Austurlandi að Glettingi, Austfjörðum og Suðausturlandi á morgun. Viðvaranirnar taka gildi síðdegis og standa yfir þangað til í fyrramálið. Varað er við norðvestan stormi 18-23 m/s og hvössum vindstrengjum við fjöll, 30-35 m/s. Varasamt verður að vera á ferðinni, einkum fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.