Erlent

Telja að hundruð hafi smitast af nýju veirunni í Kína

Kjartan Kjartansson skrifar
Vegfarendur í Tókýó með andlitsmaska. Japönsk yfirvöld segja að karlmaður sem kom heim frá Kína hafi greinst með nýtt afbrigði kórónaveiru sem kom fyrst upp í Wuhan.
Vegfarendur í Tókýó með andlitsmaska. Japönsk yfirvöld segja að karlmaður sem kom heim frá Kína hafi greinst með nýtt afbrigði kórónaveiru sem kom fyrst upp í Wuhan. AP/Eugene Hoshiko

Breskir sérfræðingar telja að allt að 1.700 manns hafi smitast af nýju afbrigði kórónaveiru sem kom upp í Kína í desember, mun fleiri en kínversk yfirvöld hafa látið uppi. Tveir hafa látist af völdum veirunnar sem veldur veikindum sem líkist lungnabólgu.

Kínversk yfirvöld segja að 45 tilfelli veirunnar hafi verið staðfest. Veiran kom fyrst upp í borginni Wuhan í desember og hefur verið tengd við markað með lifandi dýr þar. Tvö tilfelli hafa greinst í Taílandi og eitt í Japan.

Breska ríkisútvarpið BBC segir að sérfræðingar Imperial College í London, sem veita meðal annars bresku ríkisstjórninni og Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni ráð í sóttvörnum, hafi áætlað að fjöldi smita sé mun hærri en Kínverjar hafa gefið upp á grundvelli tilfellanna utan Kína.

„Ég hef verulega meiri áhyggjur nú en fyrir viku,“ segir Neil Ferguson, prófessor við háskólann, við BBC. Hann telur þó of snemmt fyrir hrakspár.

Fram að þessu hafa kínversk yfirvöld haldið því fram að veiran smitist ekki á milli manna heldur hafi hún borist frá dýrum. Ferguson segir að taka verði möguleikann á smiti á milli manna alvarlega.

„Fyrir mér er það ólíklegt, í ljósi þess sem við vitum um kórónaveirur, að snerting við dýr væri aðalorsök slíks fjölda smita hjá mönnum,“ segir Ferguson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×