Erlent

Biden vill grímuskyldu í öllum ríkjum Bandaríkjanna

Andri Eysteinsson skrifar
Joe Biden, forsetaframbjóðandi Demókrata, með grímu.
Joe Biden, forsetaframbjóðandi Demókrata, með grímu. Vísir/AP

Forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins í Bandaríkjunum, Joe Biden, hefur kallað eftir að ríkisstjórar allra fimmtíu ríkja Bandaríkjanna leiði í lög grímuskyldu næstu þrjá mánuði hið minnsta.

„Maður er ekki með grímu til þess að passa sig að smitast ekki af veirunni heldur að smita ekki aðra,“ hefur AP eftir frambjóðandanum og vísaði í spár sóttvarnasérfræðinga vestanhafs og sagði að með grímuskyldu væri hægt að bjarga 40.000 lífum næstu mánuði.

Grímur hafa mikið verið á milli tannanna á fólki í Bandaríkjunum og hafa ýmsir haldið því fram að grímuskylda í verslunum brjóti gegn stjórnarskrárvörðum réttindum. Ríkisstjórar hafa verið tregir til að taka ákvarðanir um grímuskyldu og svaraði Biden slíkum hugsunarhætti.

„Þetta eru Bandaríkin, verið föðurlandsvinir. Verjið samborgara ykkar. Sýnum ábyrgð og gerum hið rétta,“ sagði Biden.

„Hver einasti Bandaríkjamaður ætti að klæðast andlitsgrímu, utandyra, næstu þrjá mánuði hið minnsta. Allir ríkisstjórar ættu að gera það að skyldu í ríki sínu,“ sagði Biden sem nýlega valdi Kamölu Harris sem varaforsetaefni sitt fyrir forsetakosningarnar í nóvember næstkomandi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×