Enski boltinn

Englendingar vilja fá landsliðsþjálfara Hollands

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sarina Wiegman gerði Holland að Evrópumeisturum á heimavelli fyrir þremur árum.
Sarina Wiegman gerði Holland að Evrópumeisturum á heimavelli fyrir þremur árum. getty/VI Images

Enska knattspyrnusambandið vill fá Sarinu Wiegman til að taka við enska kvennalandsliðinu af Phil Neville.

Wiegman hefur náð frábærum árangri með hollenska landsliðið undanfarin ár. Undir hennar stjórn varð Holland Evrópumeistari 2017 og komst í úrslit heimsmeistaramótsins tveimur árum síðar.

Samkvæmt frétt BBC á enska knattspyrnusambandið í viðræðum við Wiegman um að taka við ensku ljónynjunum. Vonast er til að hægt verði að ganga frá ráðningu á nýjum þjálfara í þessari viku eða þeirri næstu.

Samningur Wiegmans við hollenska knattspyrnusambandið rennur út á næsta ári. Þá rennur samningur Nevilles við enska knattspyrnusambandið líka út.

Ljóst er að hann verður ekki áfram þjálfari enska landsliðsins. Hann tók við liðinu af Mark Sampson fyrir tveimur árum og stýrði því á HM 2019. Þar endaði England í 4. sæti.

Í síðasta mánuði greindi enska knattspyrnusambandið frá því að 142 aðilar hefðu sótt um stöðu þjálfara kvennalandsliðsins.

Enska knattspyrnusambandið ku einnig hafa augastað á Jill Ellis sem gerði Bandaríkin að heimsmeisturum 2015 og 2019. Hún er fædd í Englandi og bjó þar til fimmtán ára aldurs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×