Enski boltinn

Gamla Liverpool stjarnan vill komast aftur í ensku úrvalsdeildina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Daniel Sturridge endaði tíma sinn hjá Liverpool sem Evrópumeistari.
Daniel Sturridge endaði tíma sinn hjá Liverpool sem Evrópumeistari. Getty/Quality Sport Images

Daniel Sturridge yfirgaf Liverpool og ensku úrvalsdeildina sem Evrópumeistari í júní 2019 en núna vill hann komast aftur til Englands.

Daniel Sturridge er að leita sér að nýju félagi eftir að hafa endað skyndilega tímabilið sitt með tyrkneska félaginu Trabzonspor þegar hann var dæmdur í fjögurra mánaða bann fyrir brot á veðmálareglum tyrkneska knattspyrnusambandsins.

Sturridge hefur ekkert spilað síðan í mars en segist vera búinn að æfa vel á heimili sínu í Los Angeles í Bandaríkjunum. Sturridge fór í viðtal hjá Sky Sports og sagðist þar vera tilbúinn í næsta kafla á sínum ferli.

„Ég á möguleika á því að spila út um allan heim en ég er enskur leikmaður og hef alltaf elskað að spila í ensku úrvalsdeildinni,“ sagði Daniel Sturridge við Sky Sports.

„Ég trúi því að ég hafi enn margt fram að færa fyrir ensku úrvalsdeildina og ég vil segja að hún sé fyrsti kostur hjá mér. Mér finnst ég eiga eitthvað óklárað þar og vil helst frá að spila þar aftur,“ sagði Sturridge.

„Ég er tilbúinn til að spila í öðrum deildum svo að ég er ekki bara að skoða ensku úrvalsdeildina. Það væri góður kostur fyrir mig að koma aftur til Englands og gera mitt besta þar,“ sagði Sturridge.

Daniel Sturridge segist eiga mikið eftir enn. Hann skoraði 4 mörk í 11 deildarleikjum með Trabzonspor.

„Ég er mjög spenntur, hef aldrei verið hungraðri og er mjög einbeittur á næsta kafla á mínum ferli,“ sagði Sturridge.

Sturridge verður 31 árs í næsta mánuði en hann hefur skorað 105 í 306 leikjum í enska boltanum með Manchester City, Chelsea, Bolton, Liverpool og West Brom.

„Ég vil halda því fram að ég sé einn af betri kostunum fyrir liðin. Ég er með lausan samning og ég hef spilað fyrir mörg af stærstu félögum heimsins. Ég er klár í að hjálpa liði að ná árangri og vil fá að vera stór hluti af þeirra framtíðarplönum,“ sagði Sturridge.

„Ég trúi því að það sé enn nóg eftir í þessum fótum. Ég hef vissulega verið lengi að en ég á nóg eftir,“ sagði Daniel Sturridge.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×