Fótbolti

Fullyrðir að Sancho spili fyrir Dortmund í vetur - Frestur United liðinn

Sindri Sverrisson skrifar
Jadon Sancho skoraði 17 mörk í þýsku 1. deildinni á nýafstaðinni leiktíð. Hann varð þriðji markahæstur í deildinni.
Jadon Sancho skoraði 17 mörk í þýsku 1. deildinni á nýafstaðinni leiktíð. Hann varð þriðji markahæstur í deildinni. vísir/getty

Íþróttastjóri Dortmund segir það á tæru að Jadon Sancho muni spila með þýska liðinu á komandi leiktíð. Sancho hafði komist að samkomulagi um sín kjör hjá Manchester United.

Sancho ferðaðist með félögum sínum í Dortmund til Sviss í dag þar sem liðið verður í æfingabúðum næstu daga. Þessi tvítugi, enski kantmaður hafði samkvæmt The Guardian samið við United um laun upp á 250.000 pund á viku en United og Dortmund virðast ekki hafa náð saman um kaupverð.

Dortmund hafði gefið frest til dagsins í dag til að ná samningum þar sem félagið vildi klára málið áður en undirbúningur hæfist fyrir nýtt tímabil.

„Við erum með Sancho í okkar áætlunum. Hann mun spila fyrir okkur á næstu leiktíð. Þessi ákvörðun er varanleg. Ég hygg að þetta svari öllum spurningum. Við fórum í það strax síðasta sumar að breyta launum Jadons í samræmi við hans þróun. Við það tilefni var samningurinn framlengdur til ársins 2023,“ sagði Michael Zorc, íþróttastjóri Dortmund.

The Guardian segir að ummæli Zorcs beri að taka hæfilega alvarlega og að ætla megi að þau séu látin falla til að styrkja stöðu Dortmund í viðræðum við United. United vilji greiða samtals 90 milljónir punda, í þremur árlegum greiðslum, auk 18 milljóna punda sem velti á árangri Sancho og United. Dortmund telji hann hins vegar um 20% verðmætari.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×