Enski boltinn

Man Utd þarf að ná Meistaradeildarsæti til að fá Sancho

Ísak Hallmundarson skrifar
Sancho vill fara til United, en hann vill þá fá að spila í Meistaradeildinni.
Sancho vill fara til United, en hann vill þá fá að spila í Meistaradeildinni. getty/Alexandre Simoes

Jadon Sancho, 20 ára gamall leikmaður Dortmund, er sagður vilja koma til Manchester United eftir yfirstandandi tímabil ef liðið nær Meistaradeildarsæti.

Sancho hefur verið sterklega orðaður við Manchester United síðasta árið, en hann kom til Dortmund úr akademíu nágranna United í Manchester City árið 2017. Hann er enskur landsliðsmaður og þykir aðeins tímaspursmál hvenær hann spreytir sig í ensku úrvalsdeildinni.

Sancho er sagður spenntur fyrir því að ganga til liðs við Manchester United, þar sem margir félagar hans úr landsliðinu spila, en þó með einu skilyrði. Hann vill spila í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð.

Manchester United er eins og stendur í 5. sæti í ensku úrvalsdeildinni, með jafnmörg stig og Leicester í 4. sætinu. Liðið hefur verið á góðu skriði undanfarið og hefði getað farið upp í þriðja sæti með sigri gegn Southampton síðasta mánudag, en fékk á sig jöfnunarmark á 96. mínútu. Þó eru enn góðar líkur á að liðið nái Meistaradeildarsæti, en liðið mætir einmitt Leicester í lokaumferðinni í ensku úrvalsdeildinni.

Takist þeim það er United sagt þurfa að borga 109 milljónir punda fyrir Sancho. Dortmund er sagt þurfa á peningnum að halda vegna fjárhagslegs taps af áhrifum Kórónuveirunnar á liðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×