Fótbolti

Nagels­mann hafnaði Real þegar Lopetegui var ráðinn

Anton Ingi Leifsson skrifar
Nagelsmann á hliðarlínunni.
Nagelsmann á hliðarlínunni. vísir/getty

Julian Nagelsmann, þjálfari RB Leipzig, segist hafa hafnað Real Madrid árið 2018 er félagið var í leit að nýjum stjóra eftir að Zinedine Zidane hætti.

Zidane stýrði liðinu frá janúarmánuði árið 2016 og til sumarsins 2018 en þá hætti hann. Því hófu Madrídingar leit og ofarlega á listanum virðist nafn Nagelsmann hafa verið.

Hann hafnaði því hins vegar og Madrídingar réðu Julen Lopetegui. Hann entist einungis fjóra mánuði í starfi, Santiago Solari í næstu fimm áður en Zidane var svo mættur aftur og er þar enn.

„Við töluðum saman í síma en ég tók ákvörðun um þetta að lokum. Mér fannst þetta ekki rétta skrefið að fara til Real Madrid,“ sagði Nagelsmann í samtali við Marca.

„Ég var einn af þeim sem kom til greina og listinn var ekki langur. Það var mikilvægt. Ég átti gott samtal við Jose Angel Sanchez [framkvæmdastjóra Real] og við ákváðum að þetta væri ekki rétta skrefið.“

Nagelsmann varð yngsti þjálfarinn í sögu þýsku úrvalsdeildarinnar er hann tók við Hoffenheim 28 ára gamall árið 2018 en hann tók svo við Leipzig síðasta sumar.

„Við ákváðum að tala aftur saman í framtíðinni ef Real vantaði þjálfara og ég væri á lausu.“

Leipzig er komið í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar en þeir mæta hinu Madrídar-liðinu, Atletico, á fimmtudagskvöldið í Portúgal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×