Erlent

Ætlar að boða til snemmbúinna kosninga

Andri Eysteinsson skrifar
Mótmælaalda hefur blossað upp að nýju eftir sprenginguna á þriðjudag.
Mótmælaalda hefur blossað upp að nýju eftir sprenginguna á þriðjudag. Getty/Daniel Carde

Kröftug mótmæli hafa brotist út í líbönsku höfuðborginni Beirút eftir sprenginguna sem varð í borginni síðasta þriðjudag. Sprengingin kostaði að minnsta kosti 158 manns lífið og má rekja hana til ammóníum-nítrats sem hafði verið geymt í miklu magni í geymslu á hafnarsvæði borgarinnar.

Mikil reiði gætir gagnvart stjórnvöldum vegna sprengingarinnar og mótmæltu þúsundir Líbana á götum Beirút í dag. Mótmælendur reyndu að brjóta sér leið inn í þinghúsið og beitti lögregla táragasi gegn mótmælendum. BBC greinir frá.

Forsætisráðherra Líbanon, Hassan Diab, ávarpaði þjóðina í sjónvarpsútsendingu í dag og sagðist þar ætla að óska eftir því að boðað yrði til þingkosninga fyrr en áætlað væri. Væri það eina lausnin í sjónmáli til þess að koma landinu úr þeirri krísu sem hefur skapast. Málið verður rætt á ríkisstjórnarfundi á mánudag.

Efnið sem sprakk með hræðilegum afleiðingum á þriðjudag var gert upptækt fyrir sex árum og hafði aldrei verið fært úr geymslu. Ríkisstjórn Líbanon hefur lofað því að þeir sem beri ábyrgð verði fundnir.

Sprengingin hellti olíu á eld óánægju með líbanska stjórnkerfið en auk heimsfaraldurs kórónuveirunnar hefur Líbanon barist við efnahagskreppu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×