Innlent

Afsökunarbeiðni Þjóðkirkjunnar hefur mikla þýðingu

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Þorbjörg Þorvaldsdóttir, formaður Samtakanna 78 segir afsökunarbeiðni Þjóðkirkjunar hafa mikla þýðingu fyrir hinsegin samfélagið á Íslandi.
Þorbjörg Þorvaldsdóttir, formaður Samtakanna 78 segir afsökunarbeiðni Þjóðkirkjunar hafa mikla þýðingu fyrir hinsegin samfélagið á Íslandi. BALDUR HRAFNKELL

Þjóðkirkjan og Samtökin 78 hefja nú samstarfsverkefni sem ber yfirskriftina Ein saga - eitt skref. Verkefnið fer þannig fram að persónulegum reynslusögum af fordómum og andstöðu Þjóðkirkjunar við réttindum hinsegin fólks í gegnum árin verður safnað saman og sögurnar gerðar opinberar næsta vor.

„Næsta vor verða þessar sögur settar í kirkjur landsins. Dreift þar þannig að þær séu öllum opinberar. Þannig að við vitum öll hvað fólk hefur þurft að ganga í gegnum,“ Sagði Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands.

Agnes M. Sigurðardóttir er Biskup Íslands.BALDUR HRAFNKELL

Dagurinn í dag átti að vera hápunktur hinsegin daga þar sem gleðigangan átti að fara fram. Því er táknrænt að þessi dagur hafi verið valinn til uppgjörs.

„Hér átti gleðigangan að fara fram í dag en hún var blásin af vegna faraldurs kórónuveirunnar. Í fyrra mættu hingað í miðbæinn þúsundir en í dag er hér nánast enginn. Fólk hefur þess í stað verið hvatt til að fara í gleðigöngutúr í tilefni dagsins.“

Klukkan 13 í dag fór athöfn fram þar sem biskup Íslands bað hinsegin samfélagið formlega afsökunar.

„Ég bið hinsegin samfélagið í heild sinni og öll þau sem hafa upplifað fordóma mismunun og útskúfun af hendi þjóðkirkjunnar afsökunar.“

Nú verði hver og einn að meta afsökunarbeiðnina en ljóst er að ekki eru öll sár gróin.

„Nei sárin eru ekki gróin. Sum sár gróa aldrei en það hrúðar yfir þau,“ sagði Agnes og formaður Samtakanna 78 tók undir.

Hvaða þýðingu hefur svona afsökunarbeiðni á borð við þessa?

„Hún hefur mikla þýðingu. Hún hefur það,“ sagði Þorbjörg Þorvaldsdóttir, formaður Samtakanna 78.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×