Innlent

Lengri barátta framundan og hertar aðgerðir líklegar

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Víðir Reynisson, Þórólfur Guðnason og Jóhann Björn Skúlason á fundi dagsins.
Víðir Reynisson, Þórólfur Guðnason og Jóhann Björn Skúlason á fundi dagsins. lögreglan

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sér fram á langa baráttu við kórónuveiruna núna í haust. Veiran sé á víð og dreif og sami árangur sé ekki að nást með sóttkví og einangrun eins og í vor. Sóttvarnalæknir segir því styttast í að hertar aðgerðir gegn veirunni verði kynntar, helgin muni skera úr um það. 

Á upplýsingafundi almannavarna var Þórólfur spurður hvort þjóðin ætti að búa sig undir svipaða stöðu og skapaðist hér á landi í vor, þegar lokanir og heimavinna voru allsráðandi. Þórólfur segir stöðuna núna vera um margt svipaða og skapaðist þá. Þannig sé svipaður veldisvöxtur á veirunni en aftur á móti sé flæði veirunnar inn í landið minna en það var í vor. Það beri með sér að aðgerðir á landamærunum séu að skila árangri. 

Þess í stað séu almannavarnir að eiga við eina gerð veirunnar sem farið hefur víða og stingur upp kollinum um allt land. Það megi gera ráð fyrir að það muni taka lengri tíma að stöðva hana, samanborið við baráttuna í vor. Færri séu þannig að greinast með veiruna sem þegar eru komnir í sóttkví að sögn Þórólfs, en bætti þó við að engu síður sé almannavörnum að takast að hafa uppi á mörgum einstaklingum snemma í ferlinu.

Þó svo að baráttan verði ef til vill lengri standi til að beita sömu aðferðum og gerðu gæfumuninn í vor. Nú bíði það verkefni að sannfæra þjóðina um að taka virkari þátt í sóttvarnaaðgerðum. „Reyna að vekja fólk“ og fá það með. 

Takist það ekki og vöxtur faraldursins heldur áfram segir Þórólfur að herða þurfi aðgerðir. Það muni skýrast á allra næstu dögum, helgin muni skera úr um það hvort þær aðgerðir verði formlega kynntar fljótlega.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×