Íslenski boltinn

Tobias hefur leikið sinn síðasta leik fyrir KR

Anton Ingi Leifsson skrifar
Danirnir Tobias Thomsen og Rasmus Christiansen í glímu.
Danirnir Tobias Thomsen og Rasmus Christiansen í glímu. VÍSIR/DANÍEL

Tobias Thomsen er farinn frá KR og mun ekki klára leiktíðina með félaginu. Þetta staðfesti Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, í samtali við Fótbolti.net.

Á dögunum greindi Vísir frá því að Tobias væri á heimleið til Danmerkur, að minnsta kosti eftir leiktíðina, en nú er það staðfest að hann mun yfirgefa félagið strax.

„Tobias er búinn að gera starfslokasamning við KR og er að flytja heim til Danmerkur og spila með liði þar," sagði Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, við Fótbolti.net í dag.

Samkvæmt heimildum Vísis gæti Tobias verið á leið aftur til HB Köge en hann hóf meistaraflokksferil sinn þar. Fleiri lið ku vera áhugasöm um framherjann.

Danski framherjinn lék í þrjú ár á Íslandi; tvö ár með KR og eitt með Val en hann skoraði 18 mörk í 63 leikjum í úrvalsdeildinni.

Rúnar sagði í sama viðtali við Fótbolti.net að KR væru með opin augun hvað varðar leikmannamarkaðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×