Fótbolti

Andri Rúnar gæti verið á leið til Danmerkur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hleypið mér út úr þessu partýi.
Hleypið mér út úr þessu partýi. Vísir/Getty

Samkvæmt fjölmiðlum ytra virðist Ólafur Helgi Kristjánsson – nýráðinn þjálfari danska B-deildarliðsins Esbjerg– vilja fá framherjann stóra og stæðilega Andra Rúnar Bjarnason til liðs við félagið.

Andri Rúnar er á mála hjá Kaiserslautern í þýsku C-deildinni en hefur ekki átt sjö dagana sæla hjá félaginu. Eftir að hafa skorað 19 mörk í 35 leikjum með sænska félaginu Helsingborg var Andri Rúnar keyptur til Kaiserslautern síðasta sumar.

Bolvíkingurinn Andri hefur verið mikið frá vegna meiðsla síðustu tólf mánuði og lék hann til að mynda aðeins tíu leiki fyrir þýska félagið á nýliðnu tímabili. Það er talið að Ólafur vilji enda martraðardvöl Andra í Þýskalandi og gefa honum tækifæri á að sýna í hvað sér býr í Danmörku.

Áður en Andri Rúnar hélt til Svíþjóðar jafnaði hann markamet efstu deildar hér á landi þegar hann skoraði 19 mörk fyrir Grindavík sumarið 2018.

Andri Rúnar, sem verður þrítugur á þessu ári, hefur leikið fimm leiki fyrir íslenska A-landsliðið og skorað í þeim eitt mark.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×