Innlent

Gagn­rýnir yfir­völd fyrir stuttan fyrir­vara um hertar að­gerðir

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Framkvæmdastjóri tjaldsvæða Skátanna á Akureyri segir að mikil aðsókn hafi verið á tjaldsvæði á Akureyri um helgina. Vísa þurfti fólki frá vegna mannmergðar.
Framkvæmdastjóri tjaldsvæða Skátanna á Akureyri segir að mikil aðsókn hafi verið á tjaldsvæði á Akureyri um helgina. Vísa þurfti fólki frá vegna mannmergðar. Vísir/Vilhelm - tjalda.is

Vísa þurfti mörgum frá tjaldsvæðum á Akureyri um helgina. Að sögn framkvæmdastjóra tjaldsvæða Skátanna á Akureyri var mikil aðsókn á tjaldsvæði á Akureyri um helgina en þurft hafi að vísa fólki frá vegna mannmergðar og kórónuveirutakmarkana.

„Við byrjuðum á föstudagsmorgni með 1200-1300 manns á báðum svæðum samanlagt og við þurftum að fara niður í 500,“ segir Tryggvi Marinósson, framkvæmdastjóri tjaldsvæða Skátanna á Akureyri. Þeir sem hafi komið á fimmtudegi hafi aðeins fengið að greiða fyrir og vera eina nótt en þeir hafi svo þurft að víkja á föstudag.

Það hafi verið skrítið að þurfa að vísa fólki frá. Þau tuttugu ár sem tjaldsvæðið hafi verið rekið af skátunum hafi verið barist fyrir því að fólk mætti norður á Akureyri og það hafi verið beiskur biti að kyngja að þurfa að vísa fólki frá. „Það var merkilegt að þurfa að standa í því að reka í burtu.“

Vel tókst að vísa fólki frá

Á Hömrum, öðru tjaldsvæðanna, er hægt að taka við allt að 2000 manns að sögn Tryggva en vegna sóttvarnaaðgerða sem eru í gildi núna og miðað við aðstöðu á svæðinu sé aðeins hægt að taka við 400 manns.

„Þetta tók dálítinn tíma en í samvinnu við lögregluna og fleiri aðila tókst þetta en þetta er sá erfiðasti dagur sem ég hef átt við í þessum bransa í tuttugu ár,“ segir Tryggvi. Á tjaldsvæðinu við Þórunnarstræti, móti sundlauginni, sé þá aðeins pláss nú fyrir hundrað manns.

„Það tókst tiltölulega vel. Það er þannig um verslunarmannahelgina að þangað sækir meira af yngra fólki sem kom ekki núna,“ segir Tryggvi. „Bærinn var búinn að ákveða það að við myndum ekki taka yngri en 20 ára nema með fjölskyldum þannig að það fólk hreinlega kom ekki. Þannig að það var miklu auðveldara þar, þar voru bara 100 manns alla helgina.“

Á föstudagsmorguninn voru á tjaldsvæðunum um 800 fullorðnir og í kring um 450 börn. „Þetta bitnaði mjög sárt á börnunum og þetta var mjög leiðinlegt. Þau búin að koma sér fyrir og þurfa svo bara að fara.“

Mikið tekjufall vegna fjöldatakmarkana

Hann segir töluvert tekjufall hafa orðið vegna þessa enda sé svæðið dýrt í rekstri. „Svona stórt svæði eins og við erum með sem er rosalega dýrt í rekstri, ef maður tekur bara grassláttinn og allt þetta, það byggir á því að geta tekið alla þá sem vilja koma. Þar fáum við tekjurnar, það eru topparnir sem borga allt árið,“ segir Tryggvi.

Það hafi þó almennt gengið vel að vísa fólki frá og flestir hafi verið skilningsríkir en Tryggvi segir að sumir hafi úthúðað starfsmönnum. „Maður fékk alveg hreint yfir sig gusurnar og yfirvöld og allir. Mér fannst reyndar yfirvöld ansi sein því þetta lá fyrir á miðvikudaginn að eitthvað svona yrði gert og þeir gátu alveg gert þetta fyrr. Ríkisstjórnin hefði getað farið á fund um nóttina eða kvöldið áður,“ segir Tryggvi.

„En fólk var náttúrulega búið að fá undirbúning fyrir þetta og þegar menn eru að ákveða svona hluti, sem var náttúrulega nauðsynlegt, við höfum ekkert út á það að setja. Menn verða náttúrlega að grípa til ráðstafana og það er ekkert um það að ræða en það sem fólk var kannski ekki alveg að fatta er að til dæmis hjá okkur byrjar verslunarmannahelgin á miðvikudegi.“

Fimmtudagurinn að sögn Tryggva er lang stærsti dagurinn á Akureyri yfir verslunarmannahelgi og þá hafi straumurinn verið stöðugur. „Við tókum þá ákvörðun að leyfa fólki að koma inn og vera eina nótt í stað þess að reka fólk burt sem var kannski búið að keyra allan daginn, það hefði ekki beint verið mannlegt.“

Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að neðan.


Tengdar fréttir

Fáir á ferðinni á Suðurlandi en lögregla með stíft eftirlit

Engar stórir hópar fólks hafa komið saman á Suðurlandi við upphaf verslunarmannahelgar, að mati lögreglunnar á Suðurlandi. Þrátt fyrir það verður haft stíft eftirlit með ölvunar- og fíkniefnaakstri bæði á vegum og við tjaldsvæði í umdæminu.

Tjaldsvæðin á Akureyri full í nótt, mannlaus brenna í Eyjum

Töluvert er af ferðafólki á Akureyri og voru tjaldsvæðin þar full að því marki sem nýjar og hertar sóttvarnareglur leyfa í nótt, að sögn lögreglunnar á Akureyri. Engin teljandi vandræði voru í nótt en tveir voru þó kærðir fyrir ölvunarakstur.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.