Enski boltinn

De Gea fann tvífara sinn í Skotlandi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
David de Gea virðist eiga sér tvífara í Skotlandi.
David de Gea virðist eiga sér tvífara í Skotlandi. getty/Sebastian Frej

David de Gea, markverði Manchester United, brá í brún þegar hann sá viðtal við Stuart Kettlewell, knattspyrnustjóra Ross County, fyrir leik liðsins gegn Motherwell 1. umferð skosku úrvalsdeildarinnar.

De Gea og Kettlewell eru nefnilega svipaðir í útiliti, eða nánast eins. Spánverjinn birti mynd af tvífara sínum á Twitter sem vakti mikla athygli.

Kettlewell kippti sér lítið upp við þær fréttir að hann ætti tvífara í Manchester. „Sem betur fer er ég ekki á samfélagsmiðlum svo þetta fór fyrir lítið,“ sagði Skotinn.

Ross County vann Motherwell með einu marki gegn engu. Á síðasta tímabili endaði liðið í 10. sæti skosku deildarinnar af tólf liðum. Kettlewell stýrði Ross County með Steve Ferguson í tvö ár en hefur verið einn með liðið síðan í sumar.

De Gea og félagar hans í United undirbúa sig nú undir lokasprettinn í Evrópudeildinni. United mætir LASK Linz á Old Trafford í seinni leik liðanna í sextán liða úrslitum annað kvöld. United er svo gott sem komið áfram eftir 0-5 sigur í fyrri leiknum í Austurríki.

Í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar mætir United sigurvegaranum úr rimmu Istanbul Basaksehir og FC København.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×