Fótbolti

Immobile jafnaði markamet Higuain og tryggði sér Gullskóinn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Immobile fagnar einu marka sinna á leiktíðinni.
Immobile fagnar einu marka sinna á leiktíðinni. EPA-EFE/EMANUELE PENNACCHIO

Ciro Immobile – framherji Lazio og ítalska landsliðsins – er markahæsti leikmaður Evrópu á leiktíðinni sem var að ljúka. Er það í fyrsta sinn síðan árið 2008 sem markahæsti leikmaður álfunnar spilar ekki á Spáni.

Hinn þrítugi Immobile var frábær í liði Lazio sem lengi vel var í toppbaráttu á Ítalíu. Fór það svo að Juventus vann sinn níunda meistaratitil í röð en Lazio fataðist flugið og endaði í 4. sæti, fimm stigum á eftir Juventus.

Lazio tapaði 3-1 fyrir Napoli í lokaumferð deildarinnar sem fram fór í gær. Þar skoraði Immobile sitt 36. mark í deildinni og tryggði sér bæði markakóngstitilinn á Ítalíu sem og hinn eftirsótta Gullskó Evrópu. Einnig jafnaði hann markamet Serie A-deildarinnar en Gonzalo Higuain skoraði einnig 36 mörk tímabilið 2015-2016.

Gullskórinn fær sá leikmaður sem skorar mest allra í álfunni – það er að segja í sterkustu deildunum. Íslenska deildin hefur til dæmis ekki sama vægi og sú enska eða þýska.

Portúgalinn Cristiano Ronaldo var næst markahæsti leikmaður ítölsku deildarinnar í ár með 31 mark en hann hvíldi er Juventus tapaði fyrir Roma í lokaumferð deildarinnar. Titillinn þegar í höfn og hinn 35 ára gamli Ronaldo hefur viljað hvíla sig fyrir komandi átök í Meistaradeild Evrópu.

Ronaldo var þriðji markahæsti leikmaður Evrópu en Robert Lewandowski – framherji Bayern Munich og Póllands – var í öðru sæti.

Er þetta í fyrsta sinn síðan árið 2008 sem Gullskórinn endar ekki á Spáni. Þá var Cristiano Ronaldo – þáverandi leikmaður Manchester United – markahæsti leikmaður Evrópu. Síðan þá hefur Ronaldo þrisvar unnið Gullskóinn sem leikmaður Real Madrid.

Lionel Messi hefur undanfarin þrjú ár verð markahæsti leikmaður álfunnar og árið þar á undan var Luis Suarez, samherji hans hjá Barcelona, markahæstur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×