Fótbolti

Immobile jafnaði markamet Higuain og tryggði sér Gullskóinn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Immobile fagnar einu marka sinna á leiktíðinni.
Immobile fagnar einu marka sinna á leiktíðinni. EPA-EFE/EMANUELE PENNACCHIO

Ciro Immobile – framherji Lazio og ítalska landsliðsins – er markahæsti leikmaður Evrópu á leiktíðinni sem var að ljúka. Er það í fyrsta sinn síðan árið 2008 sem markahæsti leikmaður álfunnar spilar ekki á Spáni.

Hinn þrítugi Immobile var frábær í liði Lazio sem lengi vel var í toppbaráttu á Ítalíu. Fór það svo að Juventus vann sinn níunda meistaratitil í röð en Lazio fataðist flugið og endaði í 4. sæti, fimm stigum á eftir Juventus.

Lazio tapaði 3-1 fyrir Napoli í lokaumferð deildarinnar sem fram fór í gær. Þar skoraði Immobile sitt 36. mark í deildinni og tryggði sér bæði markakóngstitilinn á Ítalíu sem og hinn eftirsótta Gullskó Evrópu. Einnig jafnaði hann markamet Serie A-deildarinnar en Gonzalo Higuain skoraði einnig 36 mörk tímabilið 2015-2016.

Gullskórinn fær sá leikmaður sem skorar mest allra í álfunni – það er að segja í sterkustu deildunum. Íslenska deildin hefur til dæmis ekki sama vægi og sú enska eða þýska.

Portúgalinn Cristiano Ronaldo var næst markahæsti leikmaður ítölsku deildarinnar í ár með 31 mark en hann hvíldi er Juventus tapaði fyrir Roma í lokaumferð deildarinnar. Titillinn þegar í höfn og hinn 35 ára gamli Ronaldo hefur viljað hvíla sig fyrir komandi átök í Meistaradeild Evrópu.

Ronaldo var þriðji markahæsti leikmaður Evrópu en Robert Lewandowski – framherji Bayern Munich og Póllands – var í öðru sæti.

Er þetta í fyrsta sinn síðan árið 2008 sem Gullskórinn endar ekki á Spáni. Þá var Cristiano Ronaldo – þáverandi leikmaður Manchester United – markahæsti leikmaður Evrópu. Síðan þá hefur Ronaldo þrisvar unnið Gullskóinn sem leikmaður Real Madrid.

Lionel Messi hefur undanfarin þrjú ár verð markahæsti leikmaður álfunnar og árið þar á undan var Luis Suarez, samherji hans hjá Barcelona, markahæstur.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.