Erlent

Ríkis­þing­maður fórst þegar tvær flug­vélar skullu saman á flugi

Kjartan Kjartansson skrifar
Brak úr annarri flugvélinni í skógi nærri Soldotna í gær.
Brak úr annarri flugvélinni í skógi nærri Soldotna í gær. AP/Jeff Helminiak/Peninsula Clarion

Sjö manns fórust, þar á meðal ríkisþingmaður, þegar tvær flugvélar rákust saman á flugi skammt frá borginni Anchorage í Alaska í Bandaríkjunum í gær. Enginn komst lífs af úr slysinu og loka þurfti hraðbraut tímabundið eftir að brak úr vélunum féll á hana.

Slysið átti sér stað nærri flugvelli í Soldotna á Kenai-skaga, skammt suður af Anchorage, í gærmorgun. Gary Knopp, þingmaður Repúblikanaflokksins á ríkisþingi Alaska, flaug annarri vélinni og var einn um borð. Í henni vélinni voru fjórir ferðamenn frá Suður-Karólínu á þrítugsaldri, fertugur leiðsögumaður frá Kansas og 57 ára gamall flugmaður frá Soldotna, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Sex þeirra voru úrskurðaðir látnir á slysstað en einn lést á leið á sjúkrahús. Flugmálastofnun Bandaríkjanna og samgönguöryggisnefnd landsins rannsaka tildrög slyssins. Staðfest er að önnur vélanna var eins hreyfils de Havilland DHC-2 Beaver en hin af gerðinni Piper PA-12.

Staðarmiðillinn Anchorage Daily News segir að fjöldi fólks hafi orðið vitni að slysinu á jörðu niðri. Skyggni er sagt hafa verið gott. Brak úr vélunum féll á hraðbraut og var henni lokað í öryggiskyni í kjölfarið.

Knopp var 67 ára gamall og var kjörinn á ríkisþingið árið 2016. Hann hafði áður starfað sem verktaki, flugkennari og flugmaður um árabil.

Gary Knopp var ríkisþingmaður fyrir Repúblikanaflokkinn í Alaska. Hann flaug annarri flugvélinni og var einn um borð.AP/Becky Bohrer


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.