Erlent

Alríkislögreglumenn munu yfirgefa Portland

Andri Eysteinsson skrifar
Frá átökum í Portland í vikunni.
Frá átökum í Portland í vikunni. Getty/Spencer Platt

Bandaríkjastjórn hefur ákveðið að draga til baka hluta af liði alríkislögreglunnar sem sent hafði verið til borgarinnar Portland í Oregon þar sem að mótmælt hefur verið daglega frá því í maí.

Heimavarnarráðherra Bandaríkjanna gaf frá sér yfirlýsingu í gær þar sem greint var frá ákvörðun stjórnvalda en ekki var gefinn upp ákveðinn tímarammi aðgerðanna. Heimavarnarráðherra Bandaríkjanna, Chad Wolf, sagði í yfirlýsingunni að ákvörðunin krefjist þess að lögreglan í Portland verndi með fullnægjandi hætti alríkisbyggingar borgarinnar en þar hefur þungamiðja mótmælanna verið.

Húsnæði Alríkisdómstóls í miðborginni hefur verið vettvangur hatrammra átaka milli mótmælanda og löggæslumanna en vera alríkislögreglumanna þykir hafa gert illt verra í borginni.

Mótmælin hófust eftir dauða George Floyd í Minnesota í lok maí mánaðar og hafði ríkisstjórnin ákveðið að senda alríkishermenn til borgarinnar fyrr í júlí. Ákvörðunin var harðlega gagnrýnd af andstæðingum Trump forseta og þar á meðal var ríkisstjóri Oregon Kate Brown og borgarstjóri Portland, Ted Wheeler, en bæði koma úr röðum Demókrataflokksins.

Ríkisstjórinn Brown sem hefur sagt veru lögreglumannanna í borginni vera hluta af kosningabaráttu Repúblikana sem hvorki hún né borgarstjórinn Wheeler báðu um, segir að samkomulag hafi náðst við yfirvöld og muni hernámsliðið, líkt og hún orðaði það, byrja að yfirgefa borgina strax í dag.

Alríkislögreglumenn sem staðsettir hafa verið við dómshúsið munu þó ekki yfirgefa svæðið að svo stöddu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×