Enski boltinn

Maddison framlengir við Leicester

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Maddison hefur verið frábær í liði Leicester síðan hann kom frá Norwich City árið 2018.
Maddison hefur verið frábær í liði Leicester síðan hann kom frá Norwich City árið 2018. EPA-EFE/ANDY RAIN

Samkvæmt heimildum BBC ku James Maddison vera við það að skrifa undir nýjan fjögurra ára samning við Leicester City.

Hann er því ekki á förum frá félaginu en orðrómar þess efnis hafa verið háværir undanfarna mánuði. Maddison hefur helst verið orðaður við Manchester United en það virðist sem Ole Gunnar Solskjær ætli að einbeita sér að því að fjárfesta í Jadon Sancho, leikmanni Borussia Dortmund. Ef það gengur ekki eftir er Jack Grealish, fyrirliði Aston Villa, næstur á listanum.

Nýr samningur Maddison mun hljóða upp á 110 þúsund pund í vikulaun svo hann ætti að eiga fyrir salti í grautinn á næstu árum.

Slæmt gengi Leicester undir lok leiktíðar er ekki við Maddison að sakast en hann hefur verið frá vegna meiðsla á mjöðm undanfarnar vikur. Hann byrjaði alls 29 leiki fyrir Leicester og kom tvívegis inn af varamannabekknum. Þá skoraði hann sex mörk og lagði upp tvö.

Þar með er ljóst að Maddison verður áfram í herbúðum Leicester en Ben Chilwell – vinstri bakvörður liðsins – er á óskalista Frank Lampard hjá Chelsea og talið nær öruggt að hann yfirgefi Leicester í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×