Erlent

Yfir­völd í Þýska­landi á­hyggju­full vegna fjölgunar smita

Sylvía Hall skrifar
Lothar Wieler, yfirmaður Robert Koch stofnunarinnar, segir of snemmt að segja til um hvort fjölgunin sé upphafið að annari bylgju.
Lothar Wieler, yfirmaður Robert Koch stofnunarinnar, segir of snemmt að segja til um hvort fjölgunin sé upphafið að annari bylgju. Vísir/Getty

Lothar Wieler, yfirmaður Robert Koch smitsjúkdómastofnunarinnar, minnti Þjóðverja á að heimurinn væri í miðjum heimsfaraldri sem væri að þróast mjög hratt. Á blaðamannafundi í dag sagði hann Þjóðverja hafa orðið kærulausa og hvatti fólk til þess að nota andlitsgrímur á almannafæri.

Undanfarna viku hafa 3.611 smit verið staðfest í Þýskalandi og sagði Wieler mögulegt að önnur bylgja væri að hefjast. Í fyrsta sinn hvatti hann fólk til þess að nota andlitsgrímur ef það sæi sér ekki fært að viðhalda minnst 1,5 metra fjarlægð og ítrekaði mikilvægi einstaklingsbundinna smitvarna.

Hann sagðist þó vera bjartsýnn að landsmenn tækju höndum saman og myndu gera sitt besta í baráttunni við veiruna.

„Ég er bjartsýnn á að ef við fylgjum hreinlætisreglum getum við komið í veg fyrir [aðra bylgju], það er undir okkur komið,“ sagði Wieler.

Á mánudag tilkynntu yfirvöld þar í landi að hyggðust skima alla á landamærunum sem koma frá svokölluðum áhættulöndum. Skimunin verður gjaldfrjáls en skylda fyrir ferðalanga frá löndum á borð við Brasilíu, Tyrkland og Bandaríkin.

Á vef BBC kemur fram að rúmlega 200 þúsund hafa greinst með veiruna í Þýskalandi og hafa 9.122 látist. Það sé mun lægri tala en í mörgum öðrum Evrópuríkjum en smitum hafi farið fjölgandi undanfarna daga og eru nú um 557 daglega. Í júnímánuði voru þau um 350.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×