Fótbolti

Leikmaður Real Madrid smitaður

Sindri Sverrisson skrifar
Mariano Diaz fagnar með liðsfélögum sínum eftir að Real Madrid varð spænskur meistari 16. júlí.
Mariano Diaz fagnar með liðsfélögum sínum eftir að Real Madrid varð spænskur meistari 16. júlí. VÍSIR/GETTY

Nú þegar ellefu dagar eru í að Real Madrid mæti Manchester City í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu er komið upp kórónuveirusmit í leikmannahópi spænsku meistaranna.

Sóknarmaðurinn Mariano Diaz, sem verið hefur í litlu hlutverki hjá Real, greindist með smit þegar leikmenn Real voru prófaðir hver og einn í gær. Hann er því kominn í einangrun á heimili sínu.

Í yfirlýsingu frá Real segir að Diaz sé við „fullkomna heilsu“ þrátt fyrir að smitið hafi greinst.

Ólíklegt verður að teljast að Diaz geti mætt City á Englandi 8. ágúst en hann hefur ekkert spilað í keppninni á þessari leiktíð og aðeins leikið fimm deildarleiki, og skorað eitt mark. Madridingar bíða þess hins vegar nú að sjá hvort að um einangrað tilvik sé að ræða.

Real tapaði fyrri leiknum gegn City á heimavelli í mars, 2-1, en keppni var svo frestað fram í ágúst vegna kórónuveirufaraldursins.

Leikmenn og aðrir starfsmenn Real Madrid eru undanþegnir reglum í Bretlandi þess efnis að gestir frá Spáni þurfi að fara í tveggja vikna sóttkví, eins og fram hefur komið.


Tengdar fréttir

Leikmenn Real Madrid undanþegnir reglum um sóttkví

Zinedine Zidane og lærisveinar hans í Real Madrid munu geta mætt til Englands í seinni leik sinn við Manchester City, í Meistaradeild Evrópu, án þess að þurfa að fara í tveggja vikna sóttkví.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×