Erlent

Bolsonaro laus við Covid-19

Samúel Karl Ólason skrifar
Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu.
Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu. EPA/JOEDSON ALVES

Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, er laus við Covid-19, sjúkdóminn sem nýja kórónuveiran veldur. Þessu sagði forsetinn frá á Twitter í dag en hann fékk neikvætt út úr skimun fyrir veirunni. Bolsonaro sagði frá smiti sínu þann 7. júlí. Á miðvikudaginn greindist hann enn með sjúkdóminn en hann hefur ekki sagt hvenær þetta nýjasta próf var tekið.

Forsetinn fór í próf í byrjun mánaðarins eftir að hann hafði sýnt einkenni sjúkdómsins eins og þreytu, hita og vöðvaverki. Hann virðist þó ekki hafa orðið alvarlega veikur.

Brasilía er eitt þeirra ríkja sem hefur orðið hvað verst úti vegna heimsfaraldurs nýju kórónuveirunnar þar sem minnst 85.238 hafa dáið vegna veirunnar, samkvæmt opinberum tölum. Bolsonaro sjálfur hefur þó ítrekað gert lítið úr alvarleika faraldursins. Hann hefur barist gegn aðgerðum ríkis- og borgarstjóra sem hafa reynt að draga úr dreifingu veirunnar í landinu.

Hann hefur rekið tvo heilbrigðisráðherra sem hafa ekki viljað hreyfa sig eftir strengjum forsetans. Í síðustu viku voru tveir mánuðir frá því síðasti heilbrigðisráðherrann var rekinn og hefur hershöfðingi sem er hliðhollur forsetanum stýrt málaflokknum síðan.

Í apríl sagði Bolsonaro mikilvægt að opna hagkerfið og draga úr félagsforðun. Það væri nauðsynlegt og ítrekaði hann að ábyrgðin væri hans. Tæpum tveimur vikum seinna, þegar um fimm þúsund manns voru dánir, sagðist hann ekki bera ábyrgð á neinu.

Fyrr í þessari viku tilkynntu tveir ráðherrar í ríkisstjórn Bolsonaro að þeir hefðu einnig smitast af Covid-19. Það voru þeir Onyx Lorenzoni, 65 ára ríkisborgararáðherra, og hinn 62 ára gamli Milton Riberio, menntamálaráðherra.


Tengdar fréttir

Bolsonaro segist hafa það gott í veikindunum

Engan bilbug er að finna á Jair Bolsonaro, forseta Brasilíu, sem segist hafa það „mjög gott“ þrátt fyrir að hann hafi greinst smitaður af kórónuveirunni. Hann þakkar malaríulyfi sem hann hefur hampað mjög hversu mild einkenni hann hafi fengið til þessa.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×