Erlent

Fjöldi tilfella í Brasilíu kominn yfir tvær milljónir

Andri Eysteinsson skrifar
Bolsonaro, sem hér sést í bakgrunninum eftir að hann smitaðist af kórónuveirunni, hefur verið gagnrýndur fyrir viðbrögð við faraldrinum.
Bolsonaro, sem hér sést í bakgrunninum eftir að hann smitaðist af kórónuveirunni, hefur verið gagnrýndur fyrir viðbrögð við faraldrinum. Getty/Andre Borges

Fjöldi Brasilíumanna sem greinst hafa smitaðir af kórónuveirunni hafa tvöfaldast á undanförnum 27 dögum. Alls hafa greinst yfir tvær milljónir tilfella í suður-ameríkuríkinu víðfeðma.

Samkvæmt opinberum gögnum hafa að meðaltali greinst 40.000 tilfelli á dag undanfarnar vikur í landinu þar sem næst flest tilfelli hafa greinst. Það er eingöngu í Bandaríkjunum þar sem fleiri hafa smitast samkvæmt opinberum gögnum.

Sé hröð fjölgun smitaðra í Brasilíu borin saman við Bandaríkin sést að talsverður munur er á útbreiðsluhraða. Önnur milljón tilfella var staðfest 43 dögum eftir að fyrsta milljónin var staðfest í Bandaríkjunum en eins og áður sagði þurfti einungis 27 daga til í Brasilíu.

Alls hafa 2.012.151 tilfelli greinst í ríkinu og hafa 76.688 látið lífið. Um 210 milljónir manna búa í landinu sem er sjötta fjölmennasta ríki veraldar.

Viðbrögð Jair Bolsonaro, forseta Brasilíu, við faraldrinum hafa verið gagnrýnd harðlega og hefur kastast í kekki á milli forseta og dómstóla sem kröfðust þess að Bolsonaro myndi klæðast grímu á opinberum vettvangi. Það hafði Bolsonaro ekki tekið í mál og mætti ógrímuklæddur á mótmæli sem haldin voru gegn sóttvarnartakmörkunum sem komið hafði verið á í ýmsum borgum landsins.

Vinsældir forsetans hafa þá farið ört minnkandi og telja 44% Brasilíumanna nú að stjórn hans standi sig skelfilega eða illa í starfi. 36% voru á þeirri skoðun í lok síðasta árs.

Bolsonaro greindist sjálfur smitaður af kórónuveirunni á dögunum en hann hefur ítrekað krafist þess að ríkisstjórar ríkja Brasilíu láti af takmörkunum sem þykir hafa stuðlað að frekari útbreiðslu veirunnar í Brasilíu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×