Erlent

Yfir­völd í Bret­landi voru illa búin undir far­aldurinn

Sylvía Hall skrifar
Viðbrögð ríkisstjórnarinnar eru gagnrýnd í skýrslu þingnefndar.
Viðbrögð ríkisstjórnarinnar eru gagnrýnd í skýrslu þingnefndar. Vísir/Getty

Þingnefnd um endurskoðun ríkisreikninga í Bretlandi gagnrýnir ríkistjórn landsins harðlega fyrir illa útfærð og vanhugsuð viðbrögð við kórónuveirufaraldrinum. Sagði nefndin vinnubrögðin vera „sláandi“ og að þau gætu haft langvarandi afleiðingar fyrir efnahagskerfi landsins.

Á vef breska ríkisútvarpsins er greint frá skýrslu nefndarinnar þar sem kemur fram að fjármálaráðuneyti landsins hafi ekki komið fram með stuðningsáætlanir fyrr en um miðjan mars. Fyrstu tilfelli kórónuveirunnar í landinu voru staðfest þann 31. janúar.

Ríkisstjórnin er harðlega gagnrýnd fyrir að hafa ekki búið sig betur undir heimsfaraldurinn og afleiðingar hans. Mikill seinagangur hafi verið í viðbrögðum yfirvalda, enda hafi þurft að útfæra allar áætlanir frá grunni. Það hafi skapað mikla óvissu fyrir bæði fyrirtæki og einstaklinga.

Í skýrslunni kemur fram að ríkisstjórnin hafi æft viðbrögð við heimsfaraldri árið 2016 í svokallaðri Cygnus-æfingu sem stóð yfir í þrjá daga. Viðskipta-, orku- og iðnaðarþróunarstofnun landsins hafi þó ekki vitað af æfingunni og gagnrýnir nefndin skort á samráði.

„Það er ótrúlegt að ríkisstjórnin hafi ekki hugað að mögulegum áhrifum [veirunnar] á hagkerfið.“

Í niðurstöðum skýrslunnar er kallað eftir frekara gagnsæi í ákvarðanatöku stjórnvalda og ítrekað mikilvægi þess að yfirvöld endurskoði verkferla í neyðarástandi til þess að koma í veg fyrir að slíkt komi fyrir aftur. Margar ákvarðanatökur hafi tekið of langan tíma, til að mynda hvernig skyldi útfæra smitrakningu og útdeila hlífðarbúnaði þegar skorturinn var sem mestur.


Tengdar fréttir

Aftur þykir Boris ruglingslegur

Englendingar ættu að klæðast andlitsgrímum við matarinnkaupin til að koma í veg fyrir útbreiðslu kórónuveirunnar, að mati forsætisráðherra Bretlands.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×