Erlent

Samherjaskjölin: Fyrrverandi ráðherra synjað um lausn gegn tryggingu

Kjartan Kjartansson skrifar
Bernhard Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Namibíu.
Bernhard Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Namibíu. Twitter/The Namibian

Dómstóll í Namibíu hafnaði ósk Bernhardt Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, og tengdasonar hans um að þeir verði látnir lausir gegn tryggingu í dag, að sögn namibískra fjölmiðla. Báðir eru þeir sakaðir um að hafa þegið mútur frá félögum Samherja. Íslenska fyrirtækið segir umfjöllun um meint skattsvik fyrirtækisins fulla af rangfærslum.

Namibísku fjölmiðlarnir The Namibian og Namibian Sun greina frá því á Twitter að dómari hafi hafnað ósk Esau og Tamson Hatuikulipi, tengdasonar hans, um lausn. Dómarinn teldi málið gegn þeim sterkt og að það græfi undan tiltrú almennings á réttarkerfinu að hvítflibbaglæpamönnum væri alltaf veitt lausn gegn tryggingu.

Esau og Hatuikulipi eru í hópi namibískra embættismanna og aðila þeim tengdum sem er sakaður um að hafa tekið við mútum frá félögum Samherja í skiptum fyrir kvóta á namibískum fiskimiðum.

Fullyrt var að fjármálaráðuneyti Namibíu væri með skattamál Samherja til rannsóknar í umfjöllun OCCRP, samtaka rannsóknarblaðamanna sem sérhæfa sig í umfjöllun um skipulagða glæpastarfsemi og spillingu, í vikunni. Félög Samherja hafi flutt fjármuni úr landi til að forðast skattgreiðslur, selt fisk á undirverði og rukkað dótturfélag um yfirverð fyrir togara til þess að lækka skattgreiðslur sínar.

Í yfirlýsingu sem Samherji birti á vefsíðu sinni í gær segir fyrirtækið að umfjöllun OCCRP sé „endurtekið efni“. Það telji þá myndin sem dregin sé upp í umfjölluninni villandi. Fjölmargar rangfærslur komi fram í greininni, ýmislegt sé slitið úr samhengi og þarfnist skýringa.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×