Erlent

Trump biðlar til Banda­ríkja­manna að bera grímur fyrir vitum

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Donald Trump Bandaríkjaforseti hvetur íbúa landsins að ganga um með grímur.
Donald Trump Bandaríkjaforseti hvetur íbúa landsins að ganga um með grímur. Getty/ Chip Somodevilla

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í dag að kórónuveirufaraldurinn muni fara stigversnandi áður en hann hægi á sér og bað hann Bandaríkjamenn jafnframt um að bera grímur fyrir vitum.

Forsetinn sagði að grímurnar myndu hafa áhrif og að þeir sem bæru þær sýndu „þjóðrækni.“ Trump sjálfur var ekki með grímu á fundinum en hann hefur áður sagt árangur þess að bera grímur lítinn. Aðstoðarmenn og ráðgjafar forsetans hafa að sögn beðið hann um að breyta nálgun sinni í kórónuveiruumræðunni enda hefur tilfellum fjölgað gríðarlega í Bandaríkjunum undanfarnar vikur.

Þetta var fyrsti blaðamannafundurinn sem haldinn var í Hvíta húsinu vegna faraldursins eftir að hlé var gert á fundarhöldunum stuttu eftir að Trump ýjaði að því í Apríl að það að sprauta klór í líkamann væri góð leið til að vinna á Covid-19 sjúkdómnum.

Málflutningur forsetans virðist, samkvæmt fréttaflutningi BBC, hafa verið samkvæmt handriti og það sem hann sagði var í takt við það sem heilbrigðissérfræðingar í kórónuveiruviðbragðsteyminu hafa sagt frá upphafi.

„Við biðlum til allra að þegar þið getið ekki framfylgt félagsforðun verðið þið með grímur fyrir vitum. Fáið ykkur grímu,“ sagði forsetinn. „Hvort sem ykkur líki grímurnar eður ei hafa þær áhrif. Þær skila sínu og við þurfum á allri hjálp að halda.“

Trump hefur sjálfur verið ófús til að klæðast grímu, hið minnsta í návist fjölmiðlamanna, og sást í fyrsta skipti með slíka grímu þegar hann heimsótti hersjúkrahús nýlega.

„Við biðlum til Bandaríkjamanna að nota grímur, stunda félagsforðun og huga vel að persónulegum sóttvörnum – þvoið ykkur um hendurnar við hvert tækifæri til að vernda þá sem eru viðkvæmir fyrir,“ bætti forsetinn við. „Við biðlum einnig til ungra Bandaríkjamanna að forðast fjölmenna bari og annað margmenni innandyra. Verið örugg og verið klár.“


Tengdar fréttir

Trump varði sig með lygum í átakasömu viðtali við Fox

Misheppnuð viðbrögð Bandaríkjastjórnar við kórónuveirufaraldrinum voru efst á baugi í átakasömu viðtali Donalds Trump Bandaríkjaforseta við Fox-sjónvarpsstöðina um helgina. Trump hélt fast í lygar og misvísandi fullyrðingar þrátt fyrir tilraunir spyrils Fox til þess að ganga á forsetann um sannleiksgildi þeirra.

Heitir því að koma aldrei á grímuskyldu

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sagði í viðtali við Fox News að hann muni aldrei gera það að skyldu að klæðast andlitsgrímu í ríkinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×