Íslenski boltinn

Sveindís Jane: Elska að spila á móti Val

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hetja kvöldsins; Sveindís Jane Jónsdóttir.
Hetja kvöldsins; Sveindís Jane Jónsdóttir. vísir/daníel

Sveindís Jane Jónsdóttir brosti breitt eftir leik Breiðabliks og Vals í kvöld. Og það var svo sannarlega tilefni til því hún skoraði þrennu í 4-0 sigri Blika.

„Þetta var geggjaður leikur hjá okkur og ég er ótrúleg ánægð með stelpurnar og frammistöðuna í dag,“ sagði Sveindís í samtali við Vísi eftir leikinn á Kópavogsvelli.

Staðan var markalaus í hálfleik en Sveindís skoraði tvö mörk með mínútu millibili í upphafi seinni hálfleiks.

„Við vissum að við værum að fara að skora. Það var bara tímaspursmál hvenær mörkin kæmu. Það var frábært að byrja seinni hálfleikinn af krafti,“ sagði Sveindís.

„Mér fannst við miklu áræðnari en í fyrri hálfleik. Við sóttum á þær, gáfum ekkert eftir og vorum sterkari í baráttunni. Við gerðum þetta allt mjög vel.“

Sveindís valdi svo sannarlega rétta leikinn til að skora sína fyrstu þrennu í efstu deild; leik milli efstu liða Pepsi Max-deildarinnar og liðanna sem allir búast við að berjist um Íslandsmeistaratitilinn.

„Þetta var geggjað. Ég elska að spila á móti Val. Það er svo gaman að fá svona alvöru leiki og klára þá vel,“ sagði Sveindís.

Sem kunnugt er þurfti Breiðablik að fara í sóttkví vegna kórónuveirunnar. Hún virðist ekki hafa sett liðið út af laginu, eiginlega þvert á móti. Blikar hafa unnið báða deildarleiki sína eftir sóttkvína með fjórum mörkum gegn engu og komu einnig áfram í átta liða úrslit Mjólkurbikarsins.

„Við vorum með æfingaáætlun og æfðum alla daga. Þetta voru öðruvísi æfingar en við héldum okkur í formi,“ sagði Sveindís að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×