Íslenski boltinn

Fylkismenn hafa ekki unnið fleiri deildarleiki í röð í átján ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fylkismenn hafa unnið síðustu fjóra leiki sína í Pepsi Max deildinni með markatölunni 10-3.
Fylkismenn hafa unnið síðustu fjóra leiki sína í Pepsi Max deildinni með markatölunni 10-3. Vísir/Vilhelm

Fylkismenn unnu sinn fjórða leik í röð í Pepsi Max deildinni í gærkvöldi en þetta er í fyrsta sinn í sjö ár sem liðið nær að vinna svo marga deildarleiki í röð.

Fylkir tapaði tveimur fyrstu leikjum sínum í Pepsi Max deildinni í sumar en hefur fylgt því eftir með því að vinna Gróttu, Fjölni, KA og nú síðast FH í gærkvöldi.

Fylkir vann síðast fjóra leiki í röð í júlí og ágúst árið 2013.

Það þarf síðan að fara enn lengra aftur í tímann til að finna lengri sigurgöngu hjá Fylkisliðinu.

Fylkir vann síðast fleiri en fjóra deildarleiki í röð tímabilið 2002 þegar liðið vann fimm leiki í röð í júlí og ágúst. Það er lengsta sigurganga Fylkis í efstu deild.

Fylkir endaði í öðru sæti sumarið 2002 en missti þá af Íslandsmeistaratitlinum í lokaumferðunum. Fylkir var sjö mínútum frá því að tryggja sér titilinn í næstsíðustu umferðinni og tapaði síðan í lokaumferðinni upp á Akranesi.

KR náði að jafna metin í 1-1 í Árbænum í næstsíðustu umferðinni og tryggði sér síðan Íslandsmeistaratitilinn með 5-0 sigri á Þór í lokaumferðinni. Þyrlan fór því með Íslandsmeistarabikarinn frá Skaganum og upp á KR-völl. Fylkir hefur aldrei verið nærri því að verða Íslandsmeistari.

Markaskorararnir í 2-1 sigrinum á FH í Kaplakrika eru hvorugir búnir að halda upp á tvítugsafmælið sitt. Arnór Borg Guðjohnsen, sem skoraði sigurmarkið fjórum mínútum eftir að hann kom inn á sem varamaður verður tvítugur í september og Þórður Gunnar Hafþórsson, sem kom Fylki í 1-0, verður ekki nítján ára fyrr en í ágúst.

Fylkismenn hafa reyndar unnið fimm síðustu leiki sína því fyrsti sigurinn á tímabilinu var 8-0 sigur á ÍH í 32 liða úrslitum Mjólkurbikarsins. Eftir það hefur Árbæjarliðið unnið alla sína leiki í Pepsi Max deildinni.

Lengstu sigurgöngur Fylkis í efstu deild:

  • 5 - 2002
  • 4 - 2020  (enn í gangi)
  • 4 - 2013
  • 3 - 2000
  • 3 - 2002
  • 3 - 2004
  • 3 - 2007
  • 3 - 2008
  • 3 - 2009


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.