Erlent

Lík­ið sem fannst að öll­um lík­ind­um Riv­er­a

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Naya Rivera hvarf á miðvikudaginn síðasta þegar hún var ásamt fjögurra ára syni sínum á bát úti á Piru-stöðuvatni í Kaliforníu.
Naya Rivera hvarf á miðvikudaginn síðasta þegar hún var ásamt fjögurra ára syni sínum á bát úti á Piru-stöðuvatni í Kaliforníu. Getty/Paul Archuleta

Lík leik- og söngkonunnar Naya Rivera fannst í Piru-stöðuvatni í Kaliforníu í Bandaríkjunum í dag. Umfangsmikil leit hafði staðið yfir að Rivera frá því á miðvikudag í síðustu viku þegar fjögurra ára gamall sonur hennar fannst einn á báti úti á vatninu.

Að sögn lögreglunnar fannst lík hennar í vatninu af köfurum lögreglunnar. Á blaðamannafundi sem haldinn var við bakka stöðuvatnsins sagði Bill Ayub, lögreglustjóri í Ventura-sýslu, að embættið teldi nærri allar líkur á að líkið væri Rivera. Þá bætti hann því við að ekkert benti til að andlát hennar hefi borið að með saknæmum hætti eða að hún hafi tekið eigið líf.

Bill Ayub, lögreglustjóri í Ventur-sýslu í Kaliforníu, á blaðamannafundi við bakka Piru-vatns í dag. Hann segir allar líkur á þvi að líkið sem fannst í vatninu í dag sé lík leik- og söngkonunnar Naya Rivera.Kevin Winter/Getty

Rivera hvarf síðdegis á miðvikudag eftir að hafa stungið sér til sunds með syni sínum í vatninu. Þau höfðu tekið bát á leigu klukkan 1 eftir hádegi en þegar þau áttu að skila bátnum aftur klukkan fjögur sást hvergi til þeirra. Sonur hennar, Josey Hollis Dorsey, sagði við lögregluna að hann og mamma hans hafi farið að synda en eftir að hún hafi lyft honum aftur upp í bátinn hafi hún ekki fylgt honum eftir.

Drengurinn var sjálfur í björgunarvesti en annað björgunarvesti, fyrir fullorðinn, fannst um borð í bátnum og er því talið að Rivera hafi ekki klæðst vestinu sem hún tók á leigu. Leitarskilyrði á svæðinu voru einstaklega erfið að sögn lögreglu.

Leitin að Rivera í Piru-stöðuvatni var umfangsmikil.Getty/ Amy Sussman

Rivera er þekktust fyrir leik sinn í söngþáttunum Glee, þar sem hún fór með hlutverk klappstýrunnar Santana Lopez. Hún hóf hins vegar söng- og leikferil sinn mun fyrr en hún lék bæði í sjónvarpi og auglýsingum sem barn. Þegar hún var fjögurra ára gömul lék hún í þáttunum Royal Family og fjölda annarra þátta.

Árið 2014 lék hún í hryllingsmyndinni At the Devil‘s Dorr. Það sama ár giftist hún samleikara sínum Ryan Dorsey og eignuðust þau saman soninn Josey Hollis Dorsey árið 2016. Parið skildi að borði og sæng árið 2018.


Tengdar fréttir

Rivera talin hafa drukknað

Embætti lögreglustjórans í Ventura-sýslu gengur út frá því að leik- og söngkonan Naya Rivera hafi drukknað í Piru-stöðuvatni í suðurhluta Kaliforníu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.