Erlent

Segja pólska ríkisútvarpið ala á gyðingahatri fyrir kosningar

Kjartan Kjartansson skrifar
Duda forseti í mynd á ríkissjónvarpsstöðinni TVP. Alþjóðlegir eftirlitsmenn segja að stöðin sé hlutdræg í umfjöllun um pólsk stjórnmál.
Duda forseti í mynd á ríkissjónvarpsstöðinni TVP. Alþjóðlegir eftirlitsmenn segja að stöðin sé hlutdræg í umfjöllun um pólsk stjórnmál. Vísir/EPA

Samtök gyðinga saka ríkissjónvarpsstöð Póllands um að ala á hatri í aðdraganda forsetakosninga um helgina. Þáttastjórnendur stöðvarinnar settu spurningamerki við hvort að mótframbjóðandi Andrzej Duda forseta ætti eftir að „verða við kröfum gyðinga“.

Seinni umferð forsetakosninganna fer fram á sunnudag. Kosið er á milli Duda og Rafal Trzaskowski, frjálslynds borgarstjóra Varsjár og frambjóðanda helsta stjórnarandstöðuflokks landsins. Lög og réttlæti, stjórnarflokkur Póllands, styður Duda.

Alþjóðlegir eftirlitsmenn halda því fram að umfjöllun opinberu sjónvarpsstöðvarinnar TVP hafi verið afar hlutdræg um pólsk stjórnmál. AJC í Mið-Evrópu, hagsmunasamtök gyðinga segjast slegin yfir því að stöðin hafi haft uppi gyðingaandúð í helsta fréttaþætti sínum í gær.

Fjallað var um bætur til gyðinga fyrir eignarnám á eigum fórnarlamba helfararinnar sem er umdeilt mál í Póllandi. Þáttastjórnandi spurði þá hvort að Trzaskowski myndi „verða við kröfum gyðinga“. Stöðin hefur áður gagnrýnt Trzaskowski þegar hann sagði sem aðstoðarutanríkisráðherra að pólsk stjórnvöld ættu að semja við samtök gyðinga um bætur.

„Það er eitt þegar öfgahægrihópar á jaðrinum bera út svona skilaboð. Það er allt annað þegar ríkissjónvarpsstöð sem er fjármögnuð með peningum skattgreiðenda gerir það,“ segja AJC við Reuters-fréttastofuna.

Jaroslaw Kaczynski, leiðtogi Laga og réttlætis, sakaði Trzaskowski um að skorta föðurlandsást vegna afstöðu hans til bóta til afkomenda fórnarlamba helfararinnar.

„Hvernig gæti nokkur með snefil af pólskri sál, pólsku hjarta, sagt eitthvað í líkingu við þetta? Trzaskowski hefur þetta greinilega ekki fyrst honum finnst þetta vera mál til að ræða,“ sagði Kaczynski.

Því vísaði Trzaskowski á bug í dag og sagði ummælin sýna um hvað kosningarnar um helgina snúast.

„Hvort við viljum búa í landi þar sem leiðtogi stjórnarflokksins getur sagt að við séum rusl, að við höfum ekki pólskt hjarta, pólska sál,“ sagði hann.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.