Erlent

Segir „hugmyndafræði hinsegin fólks“ verri en kommúnisma

Sylvía Hall skrifar
Andrzej Duda sést hér til hægri. Hann sækist nú eftir endurkjöri í Póllandi.
Andrzej Duda sést hér til hægri. Hann sækist nú eftir endurkjöri í Póllandi. Vísir/getty

Andrzej Duda, forseti Póllands, beindi sjónum sínum að baráttu hinsegin fólks í landinu í kosningaræðu sinni í gær og sagði „hugmyndafræðina“ skaðlegri en kommúnisma. Kynslóð foreldra hans hefði barist gegn hugmyndafræði kommúnisma í fjörutíu ár en nú væri ný barátta tekin við.

„Þau börðust ekki svo ný hugmyndafræði kæmi fram sem er skaðlegri,“ sagði Duda í ræðu sinni, en hann hefur verið forseti Póllands frá árinu 2015.

Flokkur Duda, laga- og réttlætisflokkurinn, hefur barist gegn réttindum hinsegin fólks undanfarin ár og hefur hinsegin fólk mætt ofsóknum og ofbeldi í embættistíð hans. Á síðasta ári réðust hægri öfgahópar að fyrstu gleðigöngunni í borginni Bialystok og hentu leiftursprengjum, steinum og glerflöskum að þátttakendum í göngunni.

Á kosningafundi sínum í Brzeg í suðvesturhluta Póllands sagði Duda það vera á ábyrgð foreldra hvernig kynfræðslu væri háttað og það væri ekki á valdi stofnana að hlutast til um það. Þó skrifaði forsetinn undir kosningatillögur fyrr í mánuðinum þar sem hann lofaði því að lögleiða bann við samkynja hjónaböndum, ættleiðingu hinsegin fólks og bann gegn hinsegin fræðslu í skólum.

Duda virðist ætla beita sér mjög gegn réttindum hinsegin fólks í kosningabaráttunni, en hann sagði hinsegin fólk grafa undan virðingu og umburðarlyndi og að barátta þeirra væri skaðleg gegn mannkyninu.

Í viðtali í Víglínunni á síðasta ári ræddi Þorbjörg Þorvaldsdóttir formaður Samtakanna 78 stöðu hinsegin fólks í Póllandi. Hún sagðist óttast stefnu yfirvalda þar í landi, enda hefði kosningabaráttan í þingkosningunum á síðasta ári verið hatursfull og skaðleg fyrir hinsegin fólk í Póllandi.

„Það sem breytir alveg verulega miklu er þessi kosningabarátta sem þau hafa rekið og var mjög hatrömm og hatursfull og hún getur breytt ýmsu fyrir það fólk sem er að reyna að berjast fyrir sínum réttindum og fyrir auknu umburðarlyndi frá degi til dags.“


Tengdar fréttir

ESB hefur áhyggjur af póstkosningu í Póllandi

Varaforseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins segist hafa áhyggjur af lögmæti og áreiðanleika forsetakosninga í Póllandi í næsta mánuði eftir að pólska þingið samþykkti að fresta ekki kosningunum vegna kórónuveirufaraldursins heldur halda póstkosningu. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×