Erlent

Hissa á að teljast eigandi landareignar sem sögð er keypt fyrir fé frá Samherja

Andri Eysteinsson skrifar
Bernhard Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Namibíu.
Bernhard Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Namibíu. Twitter/The Namibian

Bernhard Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Namibíu sem er einn þeirra sem nefndur var í Samherjaskjölunum sagðist hafa verið steinhissa þegar hann komst að því að landareign á Otjiwarongo svæðinu í Namibíu væri í hans eigu.

Þetta kom fram í vitnaleiðslum í málinu gegn Esau í Windhoek í dag. Einn aðalrannsakenda nefndar sem rannsakar spillingu í Afríkuríkinu, Karl Cloete, bar vitni í dag og fjallaði þar um kaup Esau á landareign og sagði hana keypta fyrir fjármuni sem Esau fékk frá Samherja.

Cloete sagði að Esau og eiginkona hans, Swamma Esau, hafi samið um að kaupa landareign í nóvember 2017. Kaupverðið var 1.7 milljónir namibíudala og skrifuðu bæði Esau og eiginkona hans undir kaupsamninginn. Cloete sagði í vitnisburði sínum að peningarnir hafi komist til Esau frá Samherja í gegnum lögfræðistofuna De Klerk, Horn & Coetzee.

Verjandi ráðherrans fyrrverandi, Richard Metcalfe, sagði að Esau hafi ásamt eiginkonu sinni fundað með lögfræðingnum Maren De Klerk til þess að setja upp erfðaskrá eftir að Sacky Shanghala hefði mælt með De Klerk. Þar hafi De Klerk spurt Esau hvort hann hefði áhuga á að kaupa land í Otjiwarongo en Esau hafi ekki haft efni á slíkri fjárfestingu.

Metcalfe sagði að skjólstæðingur sinn hafi skrifað undir stofnsamnings fyrirtækisins sem eignaðist landareignina en hafi verið steinhissa þegar hann frétti að landareignin teldist til eigna sinna.

Sjávarútvegsráðherrann fyrrverandi hafði ekki tilgreint landareignina í Otjiwarongo þegar þess var krafist af honum fyrir upphaf réttarhaldanna að gera skilmerkilega grein fyrir eignum sínum.

Metcalfe sýndi fyrir dómstólnum tölvupóstsamskipti sem hann sagði að sýndu að hvorki Bernhard né Swamma Esau hafi verið látin vita af því að landareignin yrði skráð á hjónin. Namibian Sun greinir frá því að Esau hafi sagst ekki hafa nein not fyrir landareignina og hafi boðist til þess að gefa hana eftir og láta hana renna til ríkisins.

Þá var réttarhöldunum frestað til 21. júlí. Áætlað er að þar muni verjendur og saksóknarar flytja lokaávörp sín. Dómarinn Duard Kesslau segist telja að niðurstaða verði komin í málið degi síðar og verði þá ákvarðað hvort Esau og tengdasonur hans Tamson „Fitty“ Hatuikulipi verði leystir úr haldi gegn tryggingu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.