Erlent

Rivera talin hafa drukknað

Sylvía Hall skrifar
Naya Rivera er þekktust fyrir leik sinn í þáttunum Glee þar sem hún fór með hlutverk klappstýrunnar Santönu Lopez.
Naya Rivera er þekktust fyrir leik sinn í þáttunum Glee þar sem hún fór með hlutverk klappstýrunnar Santönu Lopez. Vísir/getty

Embætti lögreglustjórans í Ventura-sýslu gengur út frá því að leik- og söngkonan Naya Rivera hafi drukknað í Piru-stöðuvatni í suðurhluta Kaliforníu. Fjögurra ára gamall sonur hennar fannst sofandi um borð í bát sem þau höfðu tekið á leigu á miðvikudag.

Sonur hennar, Josey Hollis Dorsey, var í björgunarvesti þegar lögreglumenn komu að bátnum en um borð var björgunarvesti fyrir fullorðinn einstakling sem Rivera er talin hafa leigt fyrir sjálfa sig. Sonur hennar sagði lögreglumönnum að hún hafi stungið sér til sunds en ekki skilað sér aftur til baka.

Mæðginin leigðu bátinn klukkan 13 að staðartíma að því er fram kemur á vef BBC. Þegar þau áttu að skila bátnum þremur tímum seinna fóru starfsmenn að leita að þeim og þegar sonur hennar fannst um borð í bátnum var lögregla kölluð til.

Leitarskilyrði eru sögð vera erfið á svæðinu en eftir árangurslausa leit gengur lögregla nú út frá því að Rivera sé látin. Allt kapp sé þó lagt á að finna hana svo fjölskylda hennar geti fengið að kveðja.

Hin 33 ára gamla Rivera er þekktust fyrir leik sinn í sjónvarpsþáttunum Glee. Hún hóf leiklistarferil sinn aðeins fjögurra ára gömul. Þá á hún einn son, Josey, með leikaranum Ryan Dorsey en þau skildu árið 2018.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.