Fréttir

Ástæða til að hafa miklar áhyggjur af litlum og meðalstórum fyrirtækjum

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Páll Gunnar Pálsson er forstjóri Samkeppniseftirlitsins.
Páll Gunnar Pálsson er forstjóri Samkeppniseftirlitsins.

Ástæða er til að hafa miklar áhyggjur af litlum og meðalstórum fyrirtækjum vegna faraldurs kórónuveirunnar að sögn forstjóra Samkeppniseftirlitsins sem segir jafnframt að styrkja þurfi samkeppni á ýmsum sviðum í ljósi efnahagskreppu. 

„Við búum hér á Íslandi í litlu hagkerfi þar sem eru miklar fákeppnisaðstæður og þess vegna er gríðarlega mikilvægt að hlúa vel að samkeppni og efla hana eins og kostur er,“ sagði Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins.

Hann segir að ástæða sé til að vera á varðbergi nú þegar við stöndum frammi fyrir erfiðum efnahagsaðstæðum af völdum faraldurs kórónuveirunnar.

„Það skapar hættu á því að það verði meiri samþjöppun og fákeppnsaðstæður styrkist sem leiðir þá til hærra verðs og verri þjónustu til lengri tíma og þess vegna er gríðarlega mikilvægt að bregðast við efnahagskreppum af hverju tagi sem er, með því að styrkja samkeppni á ýmsum sviðum meðal annars með því að efla samkeppniseftirlit,“ sagði Páll.

Páll segir verndarhyggju slæm viðbrögð við efnahagskreppu.

„Reynslan sýnir að til lengri tíma er það ekki góð hugmynd vegna þess að þar með ertu að veikja samkeppni og til lengri tíma verða fyrirtæki sem lifa í slíku umhverfi veikari, rekstur og stjórnun verður veikari og verð hækkar, þjónusta versnar þannig að verndarhyggja af þessu tagi er undantekningarlaust slæm hugmynd sem viðbrögð við efnahagskreppu,“ sagði Páll.

Hann segir ástæðu til að hafa miklar áhyggjur af litlum og meðalstórum fyrirtækjum.

„Þau veita mjög stórum hluta landsmanna atvinnu, þau koma með nýjar hugmyndir inn á markaði og láta reyna á samkeppni og það hvernig stærri og rótgróin fyrirtæki starfa þannig það er gríðarlega mikilvægt að passa upp á þetta umhverfi og að við lendum ekki í umhverfi þar sem við erum í enn ríakri mæli en í dag háð fáum fyrirtækjum á markaði. Það er eitt af því sem íslensk stjórnvöld þurfa að passa upp á,“ sagði Páll.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×