Innlent

„Þeir verða stoppaðir ef að sést til þeirra“

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hópurinn ferðast um á sex jeppum, til að mynda þessum hummer. Hér má sjá hann á kafi í sunnlenskum söndum.
Hópurinn ferðast um á sex jeppum, til að mynda þessum hummer. Hér má sjá hann á kafi í sunnlenskum söndum. bureko cz

Hópur tékkneskra jeppakalla má vænta tiltals frá lögreglu eftir að hafa birtir myndir af eigin utanvegaakstri. „Við þurfum að hafa uppi á þessum mönnum,“ segir Fjölnir Sæmundsson varðstjóri hjá lögreglunni á Hvolsvelli. „Þeir verða stoppaðir ef að sést til þeirra.“

Hópurinn er á vegum bifreiðaverkstæðisins Bureko, sem sérhæfir sig í jeppabreytingum. Hann kom hingað til lands með Norrænu þann 3. júlí og hefur ekið í vesturátt síðan.

Jeppakallarnir aka á sex bílum og hafa þeir verið iðnir við að birta myndir af ferðalagi sínu. Þær bera með sér að þeir hafi m.a. ekið inn í Þórsmörk og eftir suðurströndinni - og það utanvegar í einhverjum tilfellum. Eitt dæmi þess má sjá hér að neðan.

Fyrrnefndur Fjölnir segir að ökumannanna sé nú leitað. Búið er að gera lögreglumönnum á Suðurlandi viðvart og verða þeir tékknesku stöðvaðir ef sést til þeirra. „Þetta eru bara klár brot,“ segir Fjölnir, aðspurður hvort myndefnið þeirra sýni utanvegaakstur.

Hópurinn virðist aka í vestur en Fjölnir segir að ekki hafi sést enn til þeirra á Hvolsvelli. Ætla má að þeir haldi að endingu aftur til Seyðisfjarðar til að flytja jeppakostinn sinn aftur á meginlandið.

Fjölnir biðlar til þeirra sem verða jeppahópsins vör að gera lögreglunni viðvart. Það sé hægt að gera í gegnum Facebook-síðu lögreglunnar á Suðurlandi eða í síma 444-2000.

Hér má sjá nýjustu færslu hópsins, sem sett var inn í morgun.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.