Fótbolti

Ögmundur seldur til Olympiacos

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ögmundur í leik með Larissa.
Ögmundur í leik með Larissa. vísir/getty

Ögmundur Kristinsson hefur verið seldur frá Larissa til Olympiacos en Larissa staðfesti þetta á vef sínum í morgun.

Larissa bauð Ögmundi nýjan samning en hann afþakkaði það boð. Samningur hans við Larissa átti að renna út næsta sumar, samkvæmt vefsíðunni Transfermarkt.

Þar segir að markvörðurinn öflugi vildi komast í lið sem spilaði í Evrópukeppni en Oluympiacos mun spila í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð.

Olympiacos borgar 400 þúsund evrur fyrir markvörðinn og senda tvo leikmenn til Larissa í staðinn.

Ögmundur er 31 árs en hann hefur spilað með Fram, Randers, Hammarby og Excelsior á sínum ferli.

Hann lék lykilhlutverk í liði Larissa síðustu tvær leiktíðir og vakti mikla athygli.

Olympiacos er lang stærsta liðið í Grikklandi en liðið er með tuttugu stiga forskot á toppi deildarinnar er nokkrar umferðir eru eftir.

Liðið hefur 45 sinnum orðið grískur meistari en Ögmundur er ekki fyrsti Íslendingurinn sem spilar með Grikkjunum.

Alfreð Finnbogason lék með liðinu, á láni frá Real Sociedad, tímabilið 2015/2016.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×