Erlent

Bolsonaro vildi ekki samþykkja grímuskyldu í verslunum og skólum

Andri Eysteinsson skrifar
Bolsonaro, hér með grímu, hefur verið lítið fyrir það að bera andlitsgrímur vegna faraldursins.
Bolsonaro, hér með grímu, hefur verið lítið fyrir það að bera andlitsgrímur vegna faraldursins. Getty/NurPhoto

Forseti Brasilíu, Jair Bolsonaro, sem hefur gefið lítið fyrir sóttvarnir vegna kórónuveirufaraldursins hefur nú samþykkt lög sem gera það að skyldu að klæðast andlitsgrímu. Frumvarpið sem varð að lögum tók þó nokkrum breytingum til þess að forsetinn myndi samþykkja það.

Alls hafa nú 1.539.081 íbúar Brasilíu greinst með kórónuveirusmit og þar af hafa 61.884 látið lífið af völdum veirunnar. Ríkisstjórn Brasilíu hefur verið gagnrýnd fyrir viðbrögð sín við veirunni og hefur forsetinn, Jair Bolsonaro, ítrekað gert lítið úr faraldrinum og virt sóttvarnartilmæli að vettugi. Það er einungis í Bandaríkjunum þar sem fleiri hafa látist og greinst með kórónuveirusmit.

Nú hefur Bolsonaro samþykkt lög sem gera það að skyldu að klæðast andlitsgrímu úti á meðal almennings. Sé einhver uppvís um að nota ekki andlitsgrímu á sá hinn sami yfir höfði sér myndarlega sekt. Forsetinn krafðist þess þó að grímuskyldan myndi ekki gilda alls staðar.

Ákvæði laganna sem gerðu kröfu um að grímur skyldu notaðar í verslunum, skólum og bænastöðum voru felldar með neitunarvaldi Bolsonaro. Þá má sömu sögu segja af ákvæði sem hefði gert dreifingu andlitsgríma til fátækra að skyldu stjórnvalda.

Brasilíska þjóðþingið hefur nú þrjátíu daga til þess að fella neitun Bolsonaro úr gildi.

Bolsonaro hefur ítrekað sagt að fjarlægðarreglur og sóttkví séu ekki nauðsynlegar aðgerðir til að takast á við faraldurinn og muni eingöngu hafa neikvæð áhrif á brothætt efnahagslíf Brasilíu. Hann hefur neitað að bera grímu og hlaut hann skammir frá dómstólum fyrir það í júní.

Ríki Brasilíu hafa þó að einhverju leiti reynt að hefta útbreiðslu faraldursins með aðgerðum. Nú í vikunni varð börum í Ríó de Jainero heimilt að hefja starfsemi aftur. Yfir 6.600 hafa látist í faraldrinum í borginni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×