Innlent

Geðræktarstöð á Suðurnesjum lokað vegna smits

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Björgin er til húsa í Reykjanesbæ.
Björgin er til húsa í Reykjanesbæ. Vísir/Vilhelm

Skjólstæðingur Bjargarinnar, geðræktarmiðstöðvar Suðurnesja, hefur greinst með kórónuveirusmit. Af þeim sökum hafa tíu aðrir notendur Bjargarinnar verið skikkaðir í sóttkví og Björginni verið lokað meðan unnið er að sótthreinsun.

Frá þessu greindi geðræktarmiðstöðin sjálf á Facebook í gærkvöld. Áður hafði fjölskyldumeðlimur einstaklings í Björginni greinst með kórónuveirusmit, sem kom í ljós þann 30. júní síðastliðinn. Rannsókn leiddi síðar í ljós fyrrnefndur skjólstæðingur var jafnframt smitaður og því ákváðu stjórnendur Bjargarinnar að grípa til ofangreindra aðgerða.

Forstöðumaður miðstöðvarinnar, Díana Hilmarsdóttir, segir við Fréttablaðið að verið sé að sinna viðkvæmum hópi sem átti um sárt að binda þegar Björgin var lokuð um nokkurra vikna skeið á meðan faraldurinn stóð sem hæst. Alls sækji um 25 til 40 einstaklingar geðheilbrigðishjálp og félagsskap í Björgina á dag, bæði starfsmenn og skjólstæðingar.

Sem fyrr segir hefur Björginni verið lokað meðan unnið er að sótthreinsun á húsnæðinu. Stefnt er að því að það opni aftur á mánudag.

„Viljum við ítreka mikilvægi handþvottar og að viðhalda 2ja metra reglunni eftir fremsta megni. Einnota hanskar eru til staðar ásamt handspritti. Mikilvægt er að halda sig heima ef einhver flensueinkenni eru til staðar einsog hiti, hósti, bein-og vöðvaverkir og þreyta,“ segja aðstandendur Bjargarinnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×