Erlent

Dular­fullur fíla­dauði í Botsvana

Atli Ísleifsson skrifar
Hin dularfullu dauðsföll hafa átt sér stað frá í byrjun maí, en þá fannst hópur dauðra fíla við ósa Okavango-fljótsins. Mynd er úr safni.
Hin dularfullu dauðsföll hafa átt sér stað frá í byrjun maí, en þá fannst hópur dauðra fíla við ósa Okavango-fljótsins. Mynd er úr safni. Getty

Rúmlega 350 fílar hafa drepist í norðurhluta Afríkuríkisins Botsvana síðustu mánuðina. Enn hefur ekki komið fram opinber skýring á dauða fílanna og hafa tafir orðið á sýnatöku fulltrúa yfirvalda.

Hin dularfullu dauðsföll hafa átt sér stað frá í byrjun maí, en þá fannst hópur dauðra fíla við ósa Okavango-fljótsins. Guardian hefur eftir ónafngreindum heimildarmönnum að hræ um 70 prósent fílanna hafi fundist við vatnsból.

Óljóst hvað veldur

Niall McCann, yfirmaður hjá bresku velgjörðarsamtökunum National Park Rescue, segir í samtali við Guardian að fjöldadauði fílanna sé af slíkri stærðargráðu að annað eins hafi ekki sést í langan tíma.

Yfirvöld í Botsvana hafa enn ekki ráðist í sýnatöku svo að óljóst er hvað það er sem veldur dauða dýranna.

Mögulega eitthvað sem ræðst á taugakerfið

McCann segir í samtali við BBC að hann telji ekki að þeir hafi drepist vegna miltisbrands, sem leiddi til dauða um hundrað fíla í Botsvana á síðasta ári. Sömuleiðis sé ólíklegt að eitrað hafi verið fyrir þeim þar sem svo virðist sem að dýrin sem hafi gætt sér á hræjum fílanna hafi ekki veikst eða drepist.

Sú staðreynd að mörg dýranna hafi fallið fram fyrir sig og drepist, auk þess að sést hafi til fílanna ganga í hringi áður en þau drápust, bendi til að um sé að ræða eitthvað sem ráðist á taugakerfi fílanna, að mati McCann.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×