Innlent

Múlaþing varð ofan á í nafnakönnun nýs sveitarfélags

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Seyðisfjörður er hluti af hinu nýja sveitarfélagi. Íbúar sveitarfélagsins telja Múlaþing besta nafnið af þeim sem hægt var að velja á milli í nafnakönnun.
Seyðisfjörður er hluti af hinu nýja sveitarfélagi. Íbúar sveitarfélagsins telja Múlaþing besta nafnið af þeim sem hægt var að velja á milli í nafnakönnun. Vísir/Vilhelm

Úrslit úr nafnakönnun sameinaðs sveitarfélags Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar liggja nú fyrir, og varð nafnið Múlaþing atkvæðamest. Þetta kemur fram í tilkynningu frá formanni nafnanefndarinnar.

Í könnuninni, sem er ekki bindandi, gafst íbúum hins sameinaða sveitarfélags færi á að velja á milli sex nafna. Það voru Austurþing, Austurþinghá, Drekabyggð, Múlabyggð, Múlaþing og Múlaþinghá.

Kjósendum var heimilt að velja tvö nöfn að því gefnu að auðkennt væri fyrsta og annað val. Þegar fyrsta og annað val var tekið saman voru niðurstöðurnar á þessa leið:

Múlaþing:1028

Drekabyggð: 774


Austurþing: 645

Múlaþinghá: 332

Múlabyggð: 329

Austurþinghá: 131

Í tilkynningunni kemur fram að helmingur kjósenda hefði nýtt réttinn til að velja tvö nöfn, en aðrir hafi valið einn kost. Auðir seðlar voru 35 og ógildir 37. Á kjörskrá voru 3.618 og 2.232 greiddu atkvæði í könnuninni, eða 62%.

Niðurstöður nafnakönnunarinnar ganga til nýrrar sveitarstjórnar sem kjörin verður í september. Sú sveitarstjórn mun koma til með að velja endanlega nafn á sveitarfélagið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×