Um þrjú hundruð manns sem söfnuðust saman á Austurvelli á hádegi í dag til að minnast þeirra sem létust í brunanum á Bræðraborgarstíg 1 á fimmtudag og mótmæla slæmum aðbúnaði erlends verkafólks á Íslandi gengu að vettvangi brunans og lögðu þar blóm. Þar á meðal var Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, sem lagði blómvönd að húsinu.
Haldin voru mótmæli á Austurvelli sem hófust klukkan tólf í dag til að vekja athygli á bágri stöðu erlends verkafólks hér á landi. Flestir íbúar hússins sem brann á fimmtudag voru einstaklingar af erlendum uppruna sem komu hingað í atvinnuleit.
Jakub Pilch, pólski ræðismaðurinn á Íslandi, sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að hinir látnu hafi líklegast allir verið pólskir ríkisborgarar, á þrítugs- og fertugsaldri og tiltölulega nýkomnir hingað til lands.
Slökkviliðsmenn mættu einnig niður á Austurvöll áðan til að sýna mótmælendum samstöðu. Lögreglan telur að um þrjú hundruð manns hafi gengið að Bræðraborgarstíg frá Austurvelli til að heiðra minningu þeirra sem fórust.